spot_img
HomeFréttirKeflavík sótti sigur á Hlíðarenda

Keflavík sótti sigur á Hlíðarenda

Keflavík vann Valskonur í Valshöllinni í kvöld í mjög kaflaskiptum leik. Með sigri komst Keflavík í annað sæti deildarinnar í bili að minnsta kosti. 

 

Gangur leiksins

Valskonur komu mun ákveðnari til leiks og náðu forystunni strax í upphafi. Mia Lloyd fór fyrir sínum konum og byrjaði mjög vel. Í öðrum leikhluta var barátta og varnarleikur Keflavíkur ekki til staðar og Valur gekk á lagið. Heimakonur hinsvegar hittu afleitlega og tókst ekki að slíta Keflavík frá sér. Valur komst mest í 31-24 forystu en frábær endasprettur og ævintýraleg flautukarfa Ariönnu Moorer jafnaði leikinn fyrir hálfleikinn. 

 

Í þriðja leikhluta small vörn Keflavíkur og valskonur brotnuðu auðveldlega. Valskonur settu eingöngu sjö stig í þriðja leikhluta og áttu fá svör við ákafri pressuvörn litlu slátraranna. Munurinn var fljótlega meiri en 10 stig í seinni hálfleik og varð brekka Valsara og brött og Keflavík tryggði sér sigur 54-60.

 

Hetjan

Erna Hákonardóttir var frábær fyrir Keflavík í kvöld. Hún er algjörlega frábær varnarmaður og sýndi það í dag auk þess sem hún var sjóðheit fyirr utan þriggja stiga línuna. Erna hitti fjórum af sjö þriggja stiga skotum sínum og endaði  með 16 stig. 

 

Hetja leiksins var hinsvegar Salbjörg Ragna Sævarsdóttir sem spilaði algjörlega einstakan varnarleik og skilaði fáránlegri tölfræði. Hún endaði með fjögur stig, 17 fráköst og 11 varða bolta. Auk þess gerði hún Miu Lloyd verulega erfitt fyrir en hún endaði með 11/32 í skotum. 

 

Kjarninn

Keflavík heldur í við Skallagrím sem er í efsta sætinu og gefur ekkert eftir í toppbaráttunni. Fyrri hálfleikur liðsins var sérlega ólíkur Keflavík en þegar liðið dettur í gírinn eins og það gerði í seinni hálfleik eru fá lið sem eiga roð í þær. Liðsheildin er ógnarsterk í liðinu og magnað að í svo ungu liði séu alltaf einhverjir leikmenn sem stíga upp þegar á þarf að halda. Í dag hitti Arianna Moorer mjög illa en þá mættu aðrir leikmenn sem tóku stærra hlutverk í sókninni. 

 

Valskonur eiga því miður enn og kaflaskipta leiki. Liðinu gengur mjög illa að nýta góðu kaflana til að klára leikina og má þar kenna því um að þær eru ekki nægilega sterkar í frákastadeildinni. Valur er til alls líklegur á næstu vikum og ef liðið heldur áfram að finna taktin  er ekki hægt að útiloka að þær steli fjórða sætinu af Stjörnunni. 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn leiksins

 

 

Viðtöl við þjálfara eftir leik:

 

 

 

 

Viðtöl, myndir og umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

Fréttir
- Auglýsing -