spot_img
HomeBikarkeppniKeflavík sló Njarðvík út úr bikarkeppninni í tvíframlengdum naglbít á Sunnubrautinni

Keflavík sló Njarðvík út úr bikarkeppninni í tvíframlengdum naglbít á Sunnubrautinni

Keflavík lagði Njarðvík í 8 liða úrslitum VÍS bikarkeppninnar í kvöld í tvíframlengdum leik, 103-97. Njarðvík er því úr leik þetta árið á meðan að Keflavík hafa tryggt sér sæti í fjögurra liða úrslitunum.

Fyrir leik

Í lið Njarðvíkur í kvöld vantaði tvo lykilleikmenn, en bæði Lavinia Joao Gomes Da Silva og Raquel De Lima Viegas Laneiro voru fjarri góðu gamni vegna meiðsla. Í lið Keflavíkur vantaði Eygló Kristínu Óskarsdóttur.

Gangur leiks

Þrátt fyrir að hafa ekki hafið leikinn með neinni flugeldasýningu tekst heimakonum að byggja sér upp þægilega 8 stiga forystu í fyrsta leikhlutanum, 22-14. Ljóst var á þessum upphafsmínútum leiksins að í fjarveru lykilleikmanna ltlaði Njarðvík að bæta sér það upp með aukinni ákefð á báðum endum vallarins. Segja má að það hafi síðan borgað sig í öðrum leikhlutanum, þar sem þær eru snöggar að vinna niður forskot Keflavíkur og halda leiknum ekki aðeins jöfnum, heldur eru 2 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 44-46.

Stigahæst fyrir Njarðvík í fyrri hálfleiknum var Briet Sif Hinriksdóttir með 16 stig, en hún setti niður fjóra þrista í fyrri hálfleiknum. Fyrir Keflavík var Karina Denislavova Konstantinova stigahæst með 13 stig eftir fyrstu tvo leikhlutana.

Leikar virtust enn herðast í upphafi seinni hálfleiksins þar sem nákvæmlega ekkert var gefið eftir hjá báðum liðum á varnarhelmingi vallarins. Keflavík nær þó að vera skrefinu á undan í þriðja leikhlutanum og eru sex stigum yfir að honum loknum, 65-59.

Í upphafi fjórða leikhlutans gera heimakonur vel að halda í forystu sína. Báðum liðum gengur þó nokkuð erfiðlega að skora, en þegar 5 mínútur eru til enda venjulegs leiktíma leiðir Keflavík með 5 stigum, 71-66. Leikurinn helst svo nokkuð jafn þangað til tæpar tvær mínútur eru eftir, þá setur Birna Valgerður Benónýsdóttir fyrst tvist og Ólöf Rún Óladóttir þrist strax í næstu sókn á eftir fyrir Keflavík og kemur forystu heimakvenna í 6 stig, 78-72. Með stórum þrist frá Ernu Hákonardóttur og nokkrum vítum frá Aliyah Collier nær Njarðvík að jafna leikinn, 80-80, með 26 sekúndur eftir á klukkunni. Keflavík spilar klukkuna út, en ná ekki góðu skoti undir lok venjulegs leiktíma. Staðan 80-80 og því þarf að framlengja.

Í framlengingunni skiptast liðin á körfum og má vart sjá á milli liðanna. Þegar mínúta er eftir leiðir Njarðvík með einu stigi, 88-89. Keflavík fer nokkuð illa að ráði sínu sóknarlega á þessari lokamínútu og eru í raun nokkuð heppnar að ná að jafna leikinn með körfu frá Agnesi Maríu Svansdóttur, 90-90, þegar tæpar sex sekúndur eru eftir. Njarðvík tekst ekki að ná almennilegu skoti í lokasókn sinni og því verður að framlengja, aftur.

Í annarri framlengingunni er Keflavík með nauma forystu frá byrjun til enda þrátt fyrir álitlegar tilraunir Njarðvíkur til þess að jafna leikinn. Aftur er það Agnes María Svansdóttir setur mikilvæg stig fyrir Keflavík þegar tæpar 40 sekúndur eru eftir, með tveimur stigum af gjafalínunni kemur hún stöðunni í 102-97. Að lokum sigrar Keflavík með 6 stigum, 103-97.

Atkvæðamestar

Daniela Wallen var frábær fyrir Keflavík í kvöld með 22 stig, 17 fráköst og 5 stoðsendingar. Fyrir Njarðvík var Aliyah Collier stórbrotin með 34 stig, 24 fráköst og 14 stoðsendingar.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst í Subway deildinni komandi miðvikudag 14. desember. Njarðvík fær Hauka í heimsókn í Ljónagryfjuna á meðan að Keflavík heimsækir Grindavík í HS Orku Höllina.

Tölfræði leiks

Myndasafn (SBS)

Fréttir
- Auglýsing -