Það var boðið upp á háspennuleik í Smáranum í gærkvöldi í Lengjubikar karla þegar 1. deildarlið Breiðabliks fékk úrvalsdeildarlið Keflavíkur í heimsókn. Blikar tóku frumkvæðið í fyrsta leikhluta þar sem Brynjar Karl Ævarsson lét til sín taka og skoraði 7 stig. Staðan 19:13 að honum loknum Blikum í vil.
Keflvíkingar byrjuðu hins vegar annan leikhluta af krafti og jöfnuðu leikinn í 28-28. Liðin skiptust síðan á að hafa forystuna en það voru Blikar sem leiddu með eins stigs mun í hálfleik, 43-42.
Seinni hálfleikur hófst með þriggja stiga körfu frá Blikanum Breka Gylfasyni og Brynjar fylgdi því eftir með tveimur and-1 körfum og staðan orðin 52-42. Þá vöknuðu Keflvíkingar til lífsins, skoruðu 14 stig í röð og tóku forystuna 52-56. En Brynjar og Snorri Vignis skoruðu svo 2 stig hvor svo staðan var aftur orðin jöfn þegar flautað var til loka þriðja leikhluta 56-56.
Fjórði leikhluti var svo hnífjafn og liðin skiptust á forystunni, hjá Blikum var Snjólfur Björnsson atkvæðamikill en hjá Keflvíkingum var Davíð Páll Hermannsson öflugur í teignum. Magnús Már Traustason kom Keflavík 6 stigum yfir þegar tæpar 2 mínútur voru til leiksloka, 69-75. Rúnar Ingi Erlingsson svaraði því með þrist af spjaldinu og Snjólfur smellti niður 2 vítskotum svo munurinn var einungis eitt stig 74-75 þegar 26 sekúndur eru eftir. Valur Valsson og Snjólfur skoruðu úr 2 vítum hvor fyrir sín lið svo enn munaði einu stigi þegar 10 sekúndur voru eftir og Keflvíkingar með boltann. Keflvíkingum tókst að koma boltanum á eina af sínum bestu vítaskyttum, Magnús Þór Gunnarson, og Blikar urðu að brjóta og senda hann á línuna. Magnús hitti úr fyrra skotinu og kom Keflvíkingum 2 stigum yfir en hið seinna geigaði og Snjólfur brunaði upp allan völlinn og kom upp sniðskoti um leið og Davíð Páll braut á honum, boltinn tók sér góðan tíma í að ákveða sig en vildi ekki ofan í svo Snjólfur átti 2 vítskot. Fyrra skotið geigaði en hið seinna var ofan í svo Keflvíkingar sluppu úr Smáranum með eins stigs sigur, 77-78.
Hjá Blikum voru Snjólfur og Brynjar lang atkvæðamestir í stigaskorun með 21 og 20 stig en að auki átti Þröstur Kristinsson flottan leik af bekknum með 7 stig og 6 fráköst.
Hjá Keflvíkingum voru Davíð Páll og Magnús Már með 15 stig hvor og Andrés Kristleifsson bætti við 13.
Mynd/ Ragnar Gerald Albertsson er kominn aftur í raðir Keflavíkur en hann lék með Hetti á Egilsstöðum á síðustu leiktíð.



