spot_img
HomeFréttirKeflavík skaut þeim stóru í lokin og leiða 1-0

Keflavík skaut þeim stóru í lokin og leiða 1-0

Keflavík tók forystuna í einvígi liðsins gegn Snæfell í úrslitum Dominos deildar kvenna. Leikurinn fór fram í Stykkishólmi í kvöld og Keflavík því í góðri stöðu fyrir leik tvö sem fer fram í Keflavík. 

 

Jafnt var á með liðunum í fyrsta hluta sem skiptust á forystu en Snæfell var yfir 22-18 að honum loknum. Aaryn Ellenberg og Ariana Moorer voru að draga vagna liða sinna og ljóst að hér var mikil baraátta í uppsiglingu. Keflavík skoraði svo 11-0 strax í upphafi annars hluta og komust í 22-29 en Snæfell skoraði ekki stig í nærri fjórar mínútur. Bryndís Guðmundsdóttir jafnaði á vítalínunni 30-30 og Snæfell fundu nokkur svör úr klípunni. Aaryn virtist geta skotið úr hverju sem er þegar sóknir Snæfells voru þurrar sem voru æði oft gegn þéttri vörn Keflavíkur sem leiddu 34-37 í hálfleik. Snæfell skoraði 12 gegn 19 stigum Keflavíkur í öðrum fjórðung og Aaryn með 10 af þeim og var komin með 18 stig en Ariana var komin með 17 stig fyrir Keflavík.

 

Staðan var 53-53 þegar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Snæfell hafði sett sig í bílstjórasætið og títtnefnd Aaryn stýrði öllu komin með 35 stig af 53. Keflavík voru langt frá því að leggja árar í bát og voru liðin enfaldlega að bjóða upp á frábæran fyrsta leik í úrslitum og gefa góð fyrirheit fyrir þessa seríu. Staðan 56-54 fyrir Snæfell fyrir lokafjórðunginn. Ekkert lát var á baráttunni í leiknum og staðan 63-63 þegar 3 mín voru eftir. Keflavík komust yfir og Thelma Dís smellti rándýrum þrist þegar mínúta var eftir staðan 67-71. Þrátt fyrir stolin bolta og körfu þá átti Ariana Moorer mikilvægan þrist þegar 10 sekúndur voru eftir og staðan því 69-74. Keflavík tóku mikilvægan útisigur 69-75 í þessum fyrsta leik leiða nú 1-0 og næsti leikur í Keflavík á sumardaginn fyrsta.

 

Þrátt fyrir ótrúlega frammistöðu og 42 stig hjá Aaryn Ellenberg þá einfaldlega vantaði að liðið kláraði dæmið þó það munaði litlu og voru sóknarflæði Snæfells einhæf. Hins vegar fær Ariana Moorer hetjutitilinn í þetta sinn með 20 stig, 15 fráköst og 10 stoðsendingar ásamt því að setja lokaþristinn. Þáttaskil leiksin voru stóru skot Thelmu Dísar og Ariana Moorer undir lokin og gáfu tóninn að sigrinum.

 

Þetta verða heilmiklir naglbítar þessir leikir í einvíginu og ekkert sem fólk ætti að láta fram hjá sér fara.

 

Tölfræði leiksins

 

Umfjöllun / Símon Hjaltalín

 

Fréttir
- Auglýsing -