Keflvíkingar fóru með 97:74 sigur í TM-höllinni í kvöld þegar þeir fengu Tindastól í heimsókn í Lengjubikarnum. Leikurinn var ágætis skemmtun og bæði að hrista af sér sumarið og koma sér í gírinn fyrir átökin í vetur. Keflvíkingar leiddu með 7 stigum í hálfleik en í þeim þriðja þá tóku þeir gott áhlaup og komust í 20 stiga forystu sem Stólarnir náðu aldrei að brúa.
Liðin tvö verða ekki dæmd að fullu af þessum leik enda líkt og áður sagði þá hangir sumarbragur aðeins á leik þeirra beggja. En ef við förum yfir þetta þá litu Tindastólsmenn bara nokkuð vel út framan af og héldu í við Keflvíkinga. Þeir hinsvegar misstu þá of langt frá sér og þar sást að Keflvíkingar eru með nokkuð sterkari hóp en þeir Sauðkræklingar. Hinsvegar má telja nokkuð öruggt að Skagfirðingar koma ekki til með að vera meira en einn vetur í 1. deildinni.
Keflvíkingar eru með nýjan þjálfara sem var nokkuð sáttur með sína menn eftir leik. Viðtal við Andy Johnston mun koma inná Karfan TV seinna í kvöld. En það er augljóst að hann er að kveikja nýjan neista í þessu Keflavíkurliði. Guðmundur Jónsson er þekkt stærð í deildinni og á án nokkurs vafa eftir að styrkja varnarleik liðsins en einnig má nefna ungan mann að nafni Gunnar Ólafsson sem kom frá Fjölni. Hann heillaði undirritaðan með ákveðnum leik sínum í kvöld og vert verður að fylgjast með honum í vetur hjá þeim Keflvíkingum.
Stigahæstir hjá Keflvík voru Darrell Lewis og Magnús Þór Gunnarsson báðir með 23 stig. Hjá Tindastól var það Anthony Proctor með 20 stig og 7 fráköst.



