spot_img
HomeFréttirKeflavík sendi meistara KR í sumarfrí: Unnu einvígið 3-1

Keflavík sendi meistara KR í sumarfrí: Unnu einvígið 3-1

 
Keflavík hefur tryggt sér sæti í úrslitaeinvígi Iceland Express deildar kvenna með 3-1 sigri á Íslandsmeisturum KR í undanúrslitum. Liðin mættust í sinni fjórðu viðureign í kvöld þar sem Keflavík hafði 62-70 sigur í DHL-Höllinni. Marina Caran hrökk í gang í liði Keflavíkur með 21 stig og Birna Valgarðsdóttir bætti við 14 stigum. Hjá KR var Margrét Kara Sturludóttir með 13 stig og 10 fráköst.
Margrét Kara Sturludóttir opnaði leikinn fyrir Vesturbæinga og strax í kjölfarið kom stigaþurrkur, hvorugt liðið skoraði nema þessi tvö stig fyrstu þrjár mínútur leiksins. Loks brustu þó allar flóðgáttir og Keflvíkingar héldu inn í 9-0 áhlaup og síðar 6-14 þegar Hrafn Kristjánsson tók leikhlé fyrir KR-inga.
 
Lítið gekk hjá KR í sóknum sínum framan af, einföldustu sniðskot voru útfærð án þess að notast við spjaldið og fóru nokkur þannig forgörðum svo einna helst leit út fyrir að nokkurskonar Stjörnuleikur væri í gangi, nema hvað sumarfrí beið KR-inga ef þær ætluðu að halda áfram á þessum nótum.
 
Marina Caran kom beitt af Keflavíkurbekknum með tvo þrista og staðan 12-20 Keflavík í vil sem síðar leiddu 12-24 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Bryndís Guðmundsdóttir skoraði fyrir gestina í teignum þegar tvær sekúndur voru eftir af leikhlutanum.
 
Eins og sóknartilburðir Keflavíkur voru með miklum ágætum í fyrsta leikhluta voru sóknir þeirra í öðrum leikhluta slippar og snauðar. KR lék glimrandi vörn og Keflvíkingar skoruðu ekki í tæpar átta mínútur í leikhlutanum! KR jafnaði loks metin í 29-29 og gestirnir beittu 3-2 svæðisvörn það sem eftir lifði fram að hálfleik en KR var komið á skrið og leiddi 34-32 í hálfleik.
 
KR vann annan leikhluta 20-8 og Margrét Kara Sturludóttir var með 9 stig í hálfleik í liði KR en hjá Keflavík var Pálína Gunnlaugsdóttir einnig með 9 stig.

 
Keflvíkingar skoruðu sín fyrstu stig í síðari hálfleik eftir tvær og hálfa mínútu, vörn KR var ekkert lamb að leika sér við en heimakonur voru ekki jafn röggsamar í sókninni og í öðrum leikhluta svo munurinn var ekki nema fimm stig, 39-34.
 
Lengi vel reyndu Keflvíkingar í flestum sóknum bara þriggja stiga skot og aðeins 15 stig skoruð alls hjá báðum liðum eftir sjö mínútna leik en þá loks kom kippur í sóknarleik liðanna. Marina Caran gerði fjögur stig í sömu sókninni fyrir Keflavík og gestirnir tóku á rás, náðu að komast yfir 45-47 en þá setti Sólveig Helga Gunnlaugsdóttir stóran þrist fyrir KR um leið og lokaflautið gall í þriðja leikhluta og röndóttar fóru inn í fjórða leikhluta einu stigi yfir, 48-47.
 
Marina Caran fann sig áfram vel í liði gestanna, kom Keflavík í 48-50 með lygilegum þrist er skotklukkan rann út og síðar í 50-59. Þegar rétt rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka lenti Bryndís Guðmundsdóttir stórum þrist, staðan 52-62 Keflavík í vil en þá tók KR á rás. Meistarar KR gerðu 7-0 áhlaup og staðan 59-62 þegar rétt rúm mínúta var til leiksloka.
 
Í stöðunni 59-64 tók Marina Caran sóknarfrákast fyrir Keflavík þegar 48 sekúndur voru til leiksloka, ný skotklukka hjá Keflavík og KR sá sig nauðbeygðar í að fara að brjóta til þess að vinna boltann. Keflavík var með öll tromp á hendi og sendu því Íslandsmeistara KR í sumarfrí, lokatölur 62-70 Keflavík í vil sem vann seríuna 3-1.
 
Það ræðst svo á þriðjudagskvöld hvort Keflavík muni mæta deildarmeisturum Hamars eða Njarðvík í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. Sama hvernig fer í oddaleik Hamars og Njarðvíkur verður nýr kafli ritaður í úrslitaeinvígi kvenna þar sem ekkert af þessum þremur liðum hefur áður mæst í úrslitum.
 
Byrjunarliðin:
 
KR: Hildur Sigurðardóttir, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, Margrét Kara Sturludóttir, Meilissa Jeltema og Helga Einarsdóttir.
 
Keflavík: Ingibjörg Jakobsdóttir, Pálína Gunnlaugsdóttir, Birna Valgarðsdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir og Lisa Kircic.
 
Heildarskor:
 
KR: Margrét Kara Sturludóttir 13/10 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 11/5 fráköst, Melissa Ann Jeltema 10/6 fráköst, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 8, Signý Hermannsdóttir 7, Sólveig Helga Gunnlaugsdóttir 7, Hafrún Hálfdánardóttir 4, Helga Einarsdóttir 2/7 fráköst, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 0, Sigríður Elísa Eiríksdóttir 0, Aðalheiður Ragna Óladóttir 0, Helga Hrund Friðriksdóttir 0.
 
Keflavík: Marina Caran 21, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 14/5 fráköst, Pálína Gunnlaugsdóttir 13/5 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 11/8 fráköst, Lisa Karcic 8/16 fráköst/3 varin skot, Ingibjörg Jakobsdóttir 3, Lovísa Falsdóttir 0, Hrund Jóhannsdóttir 0, Telma Lind Ásgeirsdóttir 0, Hrönn Þorgrímsdóttir 0, Marín Rós Karlsdóttir 0, Eva Rós Guðmundsdóttir 0.
 
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Einar Þór Skarphéðinsson
 
Ljósmyndir/ Tomasz Kolodziejski[email protected]  
 
Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson[email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -