spot_img
HomeFréttirKeflavík sendi Fjölni í sumarfrí

Keflavík sendi Fjölni í sumarfrí

Keflavík lagði Fjölni nokkuð örugglega í Blue höllinni í kvöld í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum Subway deildar kvenna, 88-72. Með sigrinum tryggði Keflavík sér sigur í einvíginu 3-0, en þær þurfa nú að bíða eftir niðurstöðu úr einvígi Stjörnunnar og Hauka og Vals og Njarðvíkur til að vita hvaða liði þær mæta í undanúrslitunum.

Fyrir leik

Keflavík hafði nokkuð örugglega unnið báða leiki einvígis liðanna fyrir leik kvöldsins, með 25 stigum í fyrsta leik í Keflavík áður en þær unnu þann síðasta með 31 stigi í Dalhúsum.

Gangur leiks

Heimakonur mæta virkilega einbeittar til leiks og eru snöggar að skapa smá bil á milli sín og Fjölnis. Ná einnig að koma öllu byrjunarliði sínu á blað í stigaskorun á þessum upphafsmínútum og leiða með 13 stigum þegar sá fyrsti er á enda, 27-14. Þrátt fyrir að vera ekki að spila neitt sérstaklega vel þar sem lítið er að detta með þeim nær Keflavík að halda í nokkuð þægilega forystu í öðrum leikhlutanum. Munurinn 21 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 50-29.

Stigahæstar fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum voru Sara Rún Hinriksdóttir og Daniela Wallen með 12 stig hvor á meðan að Korinne Campbell var komin með 22 stig fyrir Fjölni.

Það var ekki eins og það væri mikil trú á því að liðið gæti komið til baka hjá Fjölni í upphafi seinni hálfleiksins. Liðið heldur þó betur í við Keflavík í þriðja leikhlutanum og er munurinn 23 stig fyrir lokaleikhlutann, 68-45. Leikurinn nánast búinn á þessum tímapunkti, í upphafi fjórða fjórðungs, svo Keflavík fór að rótera meira og leyfðu minni spákonum að spreyta sig. Niðurstaðan að lokum gífurlega öruggur sigur heimakvenna, 88-72.

Kjarninn

Þrátt fyrir að á stuttum körflum Fjölnir hafi sýnt það í leik kvöldsins að þær gætu spilað við Keflavík, voru þeir kaflar alltof stuttir. Sem var eilítið saga þessa einvígis liðanna. Keflavík ekki tapað mörgum leikjum þennan veturinn, unnu bæði deild og bikar á meðan að Fjölnir kom inn í úrslitakeppnina úr áttunda sæti deildarinnar. Einfaldlega alltof mikill munur á liðunum á þessu tímabili til þess að þessi rimma hefði nokkurntíman getað orðið jöfn eða spennandi.

Atkvæðamestar

Best í liði Keflavíkur í kvöld var Daniela Wallen með 15 stig, 10 fráköst og 5 stolna bolta. Henni næst var Sara Rún Hinriksdóttir með 12 stig, 7 fráköst og þá skilaði Anna Lára Vignisdóttir 10 stigum og 3 fráköstum.

Fyrir Fjölni var það Korinne Campbell sem dró vagninn með 42 stigum og 17 fráköstum. Þá skilaði Raquel Laneiro 9 stigum, 6 fráköstum og 10 stoðsendingum.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -