Eftir allt of langa bið kom loksins að því að Dominos deildin hæfist að nýju. Í kvöld mættust lið sem hafa háð ansi harðar baráttur undanfarin ár, Stjarnan og Keflavík. Mörgum er eflaust í fersku minni ótrúleg rimma sem þessi lið háðu í fyrstu umferð úrslitakeppninnar síðasta vor, en í það skiptið voru það Stjörnumenn sem báru sigur úr býtum.
Liðin voru jöfn til að byrja með, en það entist ekki lengi. Um miðjan fyrsta leikhluta fóru gestirnir af Reykjanesi að síga fram úr, og réðu Stjörnumenn lítið við menn á borð við Michael Craion og Darrell Lewis. Staðan að loknum einum leikhluta var 18-26, gestunum í vil, og þau skilaboð komin í hús að Keflavík væru mættir til leiks á Íslandsmótinu.
Það sem eftir var höfðu Keflvíkingar tögl og hagldir á vellinum. Í öðrum leikhluta virtust Keflvíkingar í langflestum sóknum sínum fá opin þriggja stiga skot, og ef þau geiguðu voru Craion og félagar duglegir að sópa upp glerið. Í hálfleik höfðu gestirnir 16 stiga forskot, 34-50, og ljóst að heimamenn þurftu að girða sig all harkalega í brók.
Það gerðu þeir þó ekki í þriðja leikhluta, né þeim fjórða, því Keflvíkingar gjörsamlega kafsigldu heimamenn og lauk leiknum með 25 stiga sigri Keflavíkur liðsins gegn vægast sagt lánlausum Stjörnumönnum.
Gunnar Stefánsson, aðstoðarþjálfari Keflavíkur var að vonum sáttur með leik sinna manna í fyrsta leik tímabilsins. “Já þetta leit nokkuð vel út hjá okkur, það er augljóst að Stjörnumenn eru í örlitlum vandræðum með smá meiðsli, en þetta var allavega nokkuð þægilegt hjá okkur”.
Kollegi hans í Garðabænum, Snorri Örn Arnaldsson, var ekki eins kátur. “Við erum bara augljóslega ekki á þeim stað sem við viljum vera í byrjun tímabils, við vorum samt búnir að fara vel yfir vörn Keflavíkurliðsins, en það skipulag fauk allt út um gluggann þegar á hólminn var komið. Við vorum bara kraftlausir”.
Fannar Helgason var stigahæstur heimamanna með 13 stig, og Nasir Robinson skoraði 11 stig, og bætti við 10 fráköstum. Hjá Keflvíkingum var Michael Craion ógurlegur, með 18 stig, 13 fráköst og 6 varin skot.
Mynd/ BSB – Guðmundur Jónsson sækir hér að Stjörnukörfunni í Ásgarði í kvöld.



