Keflavík lagði ÍR í kvöld í þriðju umferð Subway deildar karla, 73-89.
Eftir leikinn er Keflavík taplaust á toppi deildarinnar á meðan að ÍR er á botninum og þrjá tapaða leiki það sem af er tímabili.
Gangur leiks
Það voru gestirnir úr Keflavík sem fóru miklu betur af stað í leik kvöldsins. Náðu snemma að byggja sér upp þægilega forystu og voru 10 stigum á undan eftir fyrsta leikhluta, 12-22. Undir lok fyrri hálfleiksins ná gestirnir svo enn að vænka stöðu sína, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja var staðan 28-51.
Stigahæstir í fyrri hálfleiknum voru Dominykas Milka fyrir Keflavík með 14 og Shakir Smith með 9 fyrir ÍR.
Heimamenn í ÍR gera heiðarlega tilraun til þess að komast aftur inn í leikinn í upphafi seinni hálfleiksins. Gestirnir úr Keflavík ná þó að kæfa það í fæðingu og eru með nokkuð örugga 17 stiga forystu eftir þrjá leikhluta, 49-66. Undir lokin nær Keflavík svo að sigla nokkuð öruggum 16 stiga sigur í höfn, 73-89.
Kjarninn
ÍR liðið átti í raun og veru lítinn sem engan möguleika í dag. Réðu ekkert við stóra menn Keflavíkur undir körfunni og þá náðu bakverðir þeirra lítið að gera gegn bakvarðasveit Keflavíkur. Þeirra helsti skorari Shakir Smith var næstum alveg haldið niðri og tilraunir annarra voru afar þungar. Mikill getumunur að er virtist og oft á tíðum ekki eins og um tvö lið í sömu deild væri að ræða. Ljóst er að ÍR þarf að finna einhvern kraft, eða íhuga breytingar á liðinu ef ekki á illa að fara í vetur. Leikurinn sagði svosem lítið sem ekkert um Keflavík annað en að vörnin þeirra virðist halda.
Atkvæðamestir
Dominykas Milka bestur í liði Keflavíkur í dag með 20 stig og 8 fráköst, þá bætti Hörður Axel Vilhjálmsson við 13 stigum og 10 stoðsendingum.
Í liði heimamanna var Sæþór Elmar Kristjánsson bestur með 15 stig og 4 fráköst og Sigvaldi Eggertsson var með 10 stig og 8 fráköst.
Hvað svo?
Bæði leika liðin komandi fimmtudag 28. október, Keflavík heimsækir Breiðablik í Smárann á meðan að ÍR mætir Íslandsmeisturum Þórs í Þorlákshöfn.
Myndasafn (Þorsteinn Eyþórsson)