spot_img
HomeFréttirKeflavík Powerademeistarar

Keflavík Powerademeistarar

16:04
{mosimage}

(Powerademeistarar Keflavíkur í kvennaflokki)

Íslandsmeistarar Keflavíkur eru Powerademeistarar í kvennaflokki eftir 82-71 sigur á KR í úrslitaviðureign liðanna sem fram fór í Laugardalshöll í dag. Birna Valgarðsdóttir átti góðan dag í liði Keflavíkur með 26 stig og 6 fráköst en í liði KR var Hildur Sigurðardóttir sterk með 19 stig, 15 fráköst og 6 stoðsendingar. Leikurinn var jafn frá upphafi til enda en Keflvíkingar áttu nokkrar góðar rispur bæði í vörn og sókn sem gerðu útslagið en KR eyddi oft miklu púðri í að vinna upp forystu Íslandsmeistaranna og á lokasprettinum var það verkefni þeim um megn.


Vesturbæingar voru mun ákveðnari í upphafi leiks og fyrstu níu stig liðsins komu úr þriggja stiga skotum frá systrunum Guðrúnu og Sigrúnu Ámundadætrum. Leikurinn var hraður og systurnar ásamt Hildi Sigurðardóttur voru að gera Keflvíkingum lífiið leitt. TaKesha Watson var ekki að finna sig á fyrstu mínútunum en hún klóraði í bakkann með körfu þar sem hún fékk vítaskot að auki og minnkaði muninn í 16-21 og þannig stóðu leikar að loknum fyrsta leikhluta.

{mosimage}

Keflavík hóf að pressa á KR og beita svæðisvörn í öðrum leikhluta og það féll illa í KR-inga sem strax gegn fyrstu pressu Íslandsmeistaranna grýttu boltanum útaf. Hildur Sigurðardóttir kom KR í 21-31 með þriggja stiga körfu en þá settu Keflvíkingar í fluggír og komust yfir 46-38 í hálfleik þar sem þær skoruðu 25 stig gegn 7 frá KR. Birna Valgarðsdóttir var að finna taktinn með Keflavík og skoraði 20 stig í fyrri hálfleik en Guðrún Ámundadóttir var með 14 í liði KR.

KR leið strax betur gegn pressu Keflavíkur í upphafi síðari hálfleiks og hófu hægt og bítandi að saxa á forskotið. Kristín Jónsdóttir setti niður stóran þrist fyrir KR og jafnaði leikinn í 60-60 en Rannveig Randversdóttir svaraði að bragði á hinum endanum og kom Keflavík í 62-60 með teigskoti þegar ein sekúnda var eftir af þriðja leikhluta og því leiddu Keflvíkingar fyrir lokasprettinn.

{mosimage}

Guðrún Ámundadóttir kom KR snemma yfir í fjórða leikhluta með þriggja stiga körfu og staðan var þá orðin 65-66 KR í vil en Keflvíkingar náðu forystunni aftur til baka og héldu henni af miklu harðfylgi allt til leiksloka. Vesturbæingar veittu Íslandsmeisturum Keflavíkur verðuga samkeppni og það án erlends leikmanns innan sinna raða en máttu engu að síður sætta sig við 82-71 ósigur.

Stigaskor Keflavíkur:
Birna Valgarðsdóttir 26, Pálína Gunnlaugsdóttir 15, Svava Ósk Stefánsdóttir 14, TaKesha Watson 11, Rannveig Randversdóttir 7, Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir 6, Lóa Dís Másdóttir 3, Bryndís Guðmundsdóttir 1.

Stigaskor KR:
Hildur Sigurðardóttir 19, Guðrún Ámundadóttir 18, Sigrún Ámundadóttir 17, Helga Einarsdóttir 6, Kristín Jónsdóttir 5, Rakel Viggósdóttir 4, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 2.

Myndir: [email protected] og [email protected]
Texti: [email protected]

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -