Keflavík er bikarmeistari kvenna í þrettánda sinn í sögunni. Keflavík bar sigurorð af Valskonum í Laugardalshöll í dag og framan af benti allt til þess að um stórsigur yrði að ræða. Valskonur tóku vel við sér í síðari hálfleik en misstu Guðbjörgu Sverrisdóttur, sinn helsta prímusmótor í endurkomunni, meidda af velli en talið er að hún hafi slitið hásin. Lokatölur voru 68-60 Keflavík í vil sem stóðu af sér magnað áhlaup Vals sem kokkað var upp af Unni Láru, Ragnheiði Benónísdóttur og Guðbjörgu Sverrisdóttur.
Keflavík fagnaði í dag sínum þrettánda bikartitli í sögunni og eru vel að bikarnum komnar enda lögðu Suðurnesjakonur grunninn að sigrinum í fyrri hálfleik þegar þær leiddu 38-17 í hálfleik.
Ragna Margrét Brynjarsdóttir opnaði bikarleikinn með tvö stig af línunni og svo skoraði hún einnig eftir laglega hreyfingu í næstu sókn og Valskonur komust í 0-4. Sara Rún Hinriksdóttir opnaði stigareikning Keflavíkur og minnkaði muninn í 2-4 en þá varð að gera nokkurra mínútna hlé þar sem önnur skotklukkan virkaði ekki sem skyldi.
Valsvörnin sem var í góðum gír á upphafsmínútunum missti flugið við þetta litla hlé og Keflavík fór að láta finna fyrir sér. Þær Jaleesa Butler og Ragna Margrét vörðu glæsilega skot frá Keflavík í tvígang en það virtist frekar vekja Keflvíkinga fremur en að hita undir Valsliðinu.
Keflavík hélt inn í 8-0 dembu sem lauk með körfu frá Jessicu Jenkins og staðan orðin 10-4. Keflvíkingar fóru mikið í tvídekkun gegn Jaleesu Butler og Valskonur að sama skapi skoruðu ekki í einhverjar fimm mínútur í röð í fyrsta leikhluta og virtust hafa litla trú á skotunum sínum sem dönsuðu af hringnum. Staðan 19-8 fyrir Keflavík að loknum fyrsta leikhluta og ekki að sjá að Sara Rún Hinriksdóttir væri að spila sinn fyrsta bikarúrslitaleik í meistaraflokki en hún var Keflvíkinga beittust á upphafsmínútunum.
Valskonur komust ekkert að í öðrum leikhluta fyrir ágengum Keflvíkingum fyrr en eftir rúmar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Ragna Margrét setti þá niður eitt víti en þar áður höfðu Keflvíkingar gert níu fyrstu stigin í öðrum leikhluta og staðan orðin 28-9!
Keflvíkingar voru einfaldlega margfalt betri og til að bæta gráu ofan á svart fyrir Valskonur virtist vera komið lok ofan á körfuna sem hratt öllum þeirra skottilraunum á brott. Valskonur reyndu svæðisvörn í öðrum leikhluta og Keflvíkingar tóku á móti henni með þriggja stiga körfu frá Ingunni Emblu Kristínardóttur en það var jafnframt fyrsti þristur leiksins! Bæði lið voru samtals 3-19 í þristum í fyrri hálfleik, afar döpur nýting hjá þeim fyrir utan.
Valskonur urðu fyrir mikilli blóðtöku undir lok fyrri hálfleiks þegar Guðbjörg Sverrisdóttir fór meidd af velli og kenndi sér eymsla í vinstri öxl. Ef þetta var ekki nóg af slæmum tíðindum fyrir Valskonur þá snöggreiddist Jaleesa Butler gegn grimmri Keflavíkurvörn og nældi sér í tvær villur í sömu sókninni fyrir hrindingar, Butler með afleitan fyrri hálfleik, aðeins 2 stig og lítið gagn að henni í sóknarleiknum.
Keflvíkingar leiddu 38-17 í hálfleik þar sem Sara Rún var með 10 stig og 4 fráköst í liði Keflavíkur en hún lék einnig af lífi og sál í vörninni. Þær Birna Valgarðsdóttir og Jessica Jenkins voru svo báðar með 7 stig hjá Keflavík. Í steinrunnu Valsliði var Hallveig Jónsdóttir með 8 stig í hálfleik.
Guðbjörg Sverrisdóttir fór meidd af velli í fyrri hálfleik en kom tvíelfd inn í þann síðari og gerði fyrstu fimm stig Valskvenna í síðari hálfleik og minnkaði muninn í 40-22. Valur náði að minnka muninn í 44-31 með 4-9 áhlaupi og Kristrún Sigurjónsdóttir tók öll við sér þegar hún skoraði loks sín fyrstu stig eftir rúmlega 25 mínútna leik. Um leið og vindur var kominn í seglin hjá Val fengu þær þungt högg þegar Guðbjörg Sverrisdóttir fór meidd af velli, talið er að hún hafi slitið hásin.
Ragnheiður Benónísdóttir og Unnur Lára Ásgeirsdóttir tóku þá við keflinu og fóru fyrir Val sem náði að minnka muninn í 49-47. Að sama skapi voru Keflvíkingar að þrönga sínum aðgerðum áfram og það gekk lítið og Valur vann leikhlutann 11-28 og gersamlega opnuðu leikinn fyrir eftirminnilegum lokasprett.
Stressið gerði aftur vart við sig á upphafsmínútunum í fjórða leikhluta og lítið var skorað, Keflavík gerði þó vel að halda Valskonum fjarri. Bryndís Guðmundsdóttir var drjúg í fráköstunum fyrir Keflavík í dag og reif niður 18 slík. Sara Rún kom Keflavík í 60-52 eftir glæsilega stoðsendingu frá Bryndísi Guðmundsdóttur þegar tvær mínútur lifðu leiks. Þessi átta stig reyndust Keflvíkingum nægileg fjarlægð til að halda Val í skefjum það sem eftir lifði leiks og lokatölur eins og áður greinir 68-60 Keflavík í vil sem fögnuðu vel og innilega í leikslok.
Pálína María Gunnlaugsdóttir var valin besti maður leiksins með 19 stig og 7 fráköst og Bryndís Guðmundsdóttir bætti við 15 stigum og 18 stigum og deilir að mati Karfan.is nafnbótinni með Pálínu um að vera besti maður leiksins. Hjá Val var Hallveig Jónsdóttir rmeð 13 stig en Unnur Lára Ásgeirsdóttir gerði 11 stig og kom sterk inn í Valsliðið.
Byrjunarliðin:
Keflavík: Jessica Jenkins, Pálína Gunnlaugsdóttir, Sara Rún Hinriksdóttir, Birna Valgarðsdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir.
Valur: Guðbjörg Sverrisdóttir, Kristrún Sigurjónsdóttir, Jaleesa Butler, Ragna Margrét Brynjarsdóttir og Hallveig Jónsdóttir.
Tölfræði leiksins
Til hamingju Keflavíkurkonur!