Fjórða undanúrslitaviðureign Keflavíkur og Njarðvíkur fer fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík í kvöld og hefjast leikar kl. 19:15. Ráðlegt er að mæta snemma en búist er við pakkfullu húsi enda tekur Ljónagryfjan fæsta áhorfendur af þeim fjórum heimavöllum sem nú eru í undanúrslitum. Staðan í einvíginu er 2-1 Keflavík í vil og því dugir þeim sigur í kvöld til þess að komast í úrslit deildarinnar.
Úrslit úr þremur fyrstu leikjum liðanna:
Keflavík 89-78 Njarðvík
Njarðvík 79-103 Keflavík
Keflavík 86-88 Njarðvík
Njarðvíkingar hafa ekki unnið heimaleik í úrslitakeppninni síðan árið 2007 þegar þeir unnu sinn fyrsta leik í úrslitaseríunni. Guðmundur Jónsson leikmaður Njarðvíkinga sagði eftir síðasta leik liðanna að sínir menn ætluðu að sýna að í Njarðvík kæmi enginn og hefði sigur á heimaliðinu með 20 stiga mun tvo leiki í röð. Að sama skapi sagði Gunnar Einarsson að hann ætlaði sér bara að spila einn leik til viðbótar í þessu einvígi.
Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld og vafalítið verður Ljónagryfjan orðin kjaftfull löngu fyrir leik.
Njarðvík-Keflavík
Leikur 4
Kl. 19:15 í Ljónagryfjunni
Fjölmennum á völlinn!



