Fjórða undanúrslitaviðureign Keflavíkur og Njarðvíkur er við það að hefjast en leikið er í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Staðan í einvíginu er 2-1 Keflavík í vil sem geta komist í úrslit með sigri í kvöld. Tæpum klukkutíma fyrir leik var orðið fullt út úr dyrum og stemmningin í húsinu er góð. Karfan.is mun uppfæra stöðuna reglulega úr leiknum.
4. leikhluti
Lokatölur 83-89 í Ljónagryfjunni og Keflvíkingar komnir í úrlsit. Draelon Burns smellti stórum þrist niður fyrir Keflvíkinga þegar 19 sekúndur voru til leiksloka og breytti stöðunni í 80-85. Burns gerði 21 stig í leiknum og var stigahæstur Keflvíkinga en hjá Njarðvík var Nick Bradford með 20 stig.
3. leikhluti
Keflavík leiðir 63-69 eftir þriðja leikhluta þar sem Njarðvíkingar tóku fína rispu en Gunnar Einarsson gerði fimm síðustu stig Keflavíkur í leikhlutanum og hélt sínum mönnum við efnið. Baráttan er gríðarleg í leiknum og nú er fjórði leikhluti hafinn og spennan í algleymingi. Draelon Burns er kominn með 18 stig hjá Keflavík en í liði heimamanna er Nick Bradford kominn með 13 stig.
2. leikhluti
Keflavík leiðir 39-47 í hálfleik gegn Njarðvík. Draelon Burns er kominn með 13 stig hjá Keflavík í hálfleik en hjá Njarðvík eru Jóhann Árni Ólafsson og Páll Kristinsson báðir með 7 stig. Keflvíkingar hafa verið að keyra miskunnarlaust inn í Njarðvikurteiginn með fínum árangri á meðan heimamenn hafa ekki náð að binda saman varnarleikinn sinn. Nokkrum sinnum hefur minnstu mátt að upp úr syði en gríðarleg spenna er í Ljónagryfjunni og stuðningsmenn beggja liða vel með á nótunum.
1. leikhluti
Keflavík leiðir 24-26 að loknum fyrsta leikhluta í Ljónagryfjunni. Hörður Axel Vilhjálmsson kom gestunum í 11-20 með tveimur þristum á skömmum tíma en Njarðvíkingar klóruðu sig nærri. Páll Kristinsson er kominn með 7 stig í liði heimamanna en hjá Keflavík er Draelon Burns með 9 stig. Línan er hrikalega ströng í dómgæslunni að þessu sinni og 17 villur flautaðar á fyrstu 10 mínútunum.
Byrjunarliðin:
Njarðvík: Guðmundur Jónsson, Magnús Þór Gunnarsson, Nick Bradford, Páll Kristinsson og Friðrik Erlendur Stefánsson.
Keflavík: Hörður Axel Vilhjálmsson, Gunnar Einarsson, Draelon Burns, Uruele Iagbova og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
Dómarar leiksins: Björgvin Rúnarsson og Einar Þór Skarphéðinsson
Ljósmynd/ Læti í Ljónagryfjunni



