spot_img
HomeFréttirKeflavík náðu loks sigri á Snæfelli

Keflavík náðu loks sigri á Snæfelli

Snæfell urðu deildarmeistarar eftir síðasta leik en margir vonuðust eftir hreinum úrslitaleik um titilinn í þessum síðasta deildarleik liðanna þegar Keflavík mættu í Stykkishólm. Með góðum sigri 59-72 hafði Keflavík einungis jafnað að stigum í deildinni en innbyrðis hafði Snæfell yfirhöndina 3-1 í vetur og fengu því afhentan deildarmeistaratitilinn eftir leik.

 

Fyrsta stigið kom ekki fyrr en eftir tveggja og hálfrar mínútu leik og þá af vítalíunni frá Emelíu Ósk. Liðin voru ísköld í sóknum sínum og staðan um miðjan fyrsta hluta 5-8 fyrir gestina. Keflavíkurstúlkur voru ívið ferskari, voru að vinna í fráköstunum og voru yfir 12-16. Snæfellsstúlkur unnu á í öðrum fjórðung, jöfnuðu 19-19 og komust yfir 22-21. Leikurinn var í járnum út fyrri hálfleikinn og staðan í hálfleik 30-35. Hvort liðin voru komin í úrslitakeppnina eður ei skal ósagt látið en liðin voru bæði vel undir pari.

 

Keflavík spiluðu fasta vörn í upphafi þriðja leikhluta og áttu Snæfellsstúlkur erfitt með að finna taktinn í sóknum sínum. Með þessu uppskáru gestirnir 10 stiga forystu 32-42. Snæfell voru að ná þeim aftur 42-44 þegar gestirni hófu að spila frábæra vörn og gekk allt upp sem skilaði þeim forskoti uppá 44-58 sem var staðan fyrir fjórða fjórðung en Birna Valgerður var beitt undir körfunni og sallaði hún allnokkrum góðum körfum yfir heimastúlkur. Keflavík héldu góðri forystu 55-67 og lítið í kortunum að þær myndu láta það af hendi. Kannski týpískur leikur þar sem lítið er undir nema sigurinn einn og liðið undir orðið deildarmeistari og við höfum séð margoft áður en keflavík sigraði 59-72.

 

Þáttaskil.

Keflavík lagði grunninn að sigrinum í raun allan leikinn með flottum varnarleik og náðu að ýta á veiku punktana í Snæfelli þetta kvöldið. Þetta gaf þeim byr í seglin í sóknum sínum þar sem áræðnin var til staðar og voru óhræddar að ráðast á körfuna. Þriðji leikhluti var þeirra 14-23 og með 10-0 kafla undir lok hans var nokkuð ljóst að það var ekki verið að mæta til að spila heldur vinna.

 

Hetjan.

20 stig komu af bekknum þar af var Birna Valgerður Benónýsdóttir með 15 stig og tók 8 fráköst. Virkilega góð innkoma hjá henni og áttu Snæfell í mesta basli með hana og framlag hennar ýtti verulega undir velgengni Keflavíkur þegar þær voru í ham.

 

Tölurnar.

Keflavík tók þetta einfaldlega á fráköstum og baráttu undi körfunni 48 gegn 36. Skotnýting liðanna var með svipuðu móti en Keflavík settu niður 4 þristum meira. Ariana Moorer var með 18 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar og var öflug í að stjórna sínu liði. Erna Hákonardóttir var með 15 stig. Hjá Snæfelli var Bryndís Guðmundsdóttir með 15 stig og 7 fráöst og var að berjast í þessu undir og henni næst var Aaryn Ellenberg með 14 stig, 5 fráköst og 7 stoðsendingar. Berglind Gunnarsdóttir 11 stig og 6 fráköst.

 

Umfjöllun / Símon B Hjaltalín

 

Fréttir
- Auglýsing -