spot_img
HomeFréttirKeflavík lokaði körfunni á lokasprettnum

Keflavík lokaði körfunni á lokasprettnum

Keflavík endurheimti annað sæti Dominos deildar kvenna í dag er liðið vann Stjörnuna í 22. umferð deildarinnar í dag. Stjarnan hafði yfirhöndina meirihluta leiksins og var með átta stiga forskot þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Varnarleikur Keflavíkur sem hefur verið þeirra einkenni í vetur small svo á lokamínútunum og unnu þær góðan sigur.

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

Gangur leiksins

Stjarnan mætti heldur betur til leiks í dag og voru sterkari aðilinn framan af leik. Sóknarlega voru þær Ragna Margrét og Danielle frábærar og vörn Keflavíkur átti engin svör við þeirra leik. Þegar tvær mínútur voru til hálfleiks var staðan 26-37 fyrir Stjörnunni sem virtist ætla að fara með þægilegt forskot í hálfleik. Keflavík var hinsvegar ekki á sama máli og náði 11-0 áhlaupi áður en flautað var til hálfleiks og staðan 37-37 í hálfleik. 

 

Þriðji leikfjórðungur var hnífjafn en gestirnir alltaf skrefi á undan. Munurinn var nánast aldrei meiri en 2-4 stig og því allt sem leit út fyrir æsispennandi lokahluta. Stjarnan byrjaði hann gríðarlega vel og komst í 64-56 þegar sex mínútur voru eftir. Þá fékk Ragna Margrét sína fimmtu villu og við það datt leikur Stjörnunnar heldur betur niður. Keflavík vann síðustu fimm mínútur leiksins 18-4 og knúðu fram ansi sterkan sigur 74-68. 

 

 

Tölfræði leiksins

Stjarnan gjörsamlega rústar frákastabaráttu leiksins 46-32 og í raun órúlegt að það sjáist ekki betur á fleiri skotum hjá Stjörnunni. Gestirnir frá Garðabæ fá hinsvegar 23 villur á sig gegn einungis 9 hjá Keflavík. Mikið af þessum villum voru klaufalegar og gaf Keflvíkingum tækifæri á vítalínunni. Auk þess tapar Stjarnan 18 boltum í leiknum sem verður þeim að falli að lokum. 

 

Hetja leiksins

Tvíeykið Emelía Ósk og Arianna Moorer er ansi óárennilegt á báðum endum vallarins. Arianna átti frábæran dag í dag, endaði með 19 stig, 6 fráköst, 8 stoðsendingar, 9 fiskaðar villur og 3 stolna bolta. Emelía var með 18 stig og 5 fráköst, einnig var hún með góða skotnýtingu auk þess sem varnarframlag hennar var gríðarlega mikið að vanda. 

 

Kjarninn

Stjörnukonur voru sjálfum sér verstar í kvöld. Liðið var með örugga forystu þegar lítið var eftir enn lykilmenn liðsins gerðu sig sekar um klaufalegar villur. Þegar mest lá við í leiknum virtist engin leikmaður Stjörnunnar þora að skjóta boltanum nema Danielle Rodriquez sem fékk alltaf erfiðustu skotin. Einhver af íslensku leikmönnum leiksins á borð við Bryndísi Hönnu og Bríeti hefðu þurft að stíga upp og þora að taka stóru skotin. Þetta eru góðir leikmenn sem virkilega geta skotið en sjálfstraustið virðist skorta hjá þeim. 

 

Keflavík tryggði sér í dag sæti í úrslitakeppninni formlega en fyrir tímabil var liðinu spáð 4-5 sæti deildarinnar en þær hafa heldur betur komið á óvart. Ljóst er að fyrsta markmiði Keflavíkur er náð að komast í úrslitakeppnina en liðið hefur spilað gjörsamlega frábærlega í allan vetur. Nú er bara fyrir liðið að setja sér enn háleitari markmið því liðið hefur sýnt að það er líklegt til alls og spennandi að sjá hversu hátt liðið nær í vetur. Ef varnarleikurinn helst áfram svipaður og síðustu mínúturnar í þessum leik er ljóst að fá lið eiga roð í Keflavík.  

 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn leiksins

 

Viðtal við Pétur Már Sigurðsson þjálfara Stjörnunnar 

Viðtal við Sverrir Þór Sverrisson þjálfara Keflavíkur 

 

Myndir og umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

Fréttir
- Auglýsing -