spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild kvennaKeflavík lifði kvöldið af

Keflavík lifði kvöldið af

Keflavík lagði Val í kvöld í þriðja úrslitaleik úrslita Subway deildar kvenna, 78-66. Staðan í einvíginu eftir leik kvöldsins því 2-1, en Valur getur með sigri í næsta leik tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.

Fyrir leik

Fyrir leik kvöldsins hafði Valur unnið fyrstu tvo leiki einvígissins og gátu þær því með sigri í kvöld tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn. Fyrsta leik vann Valur í Keflavík með 3 stigum, 66-69 áður en þær komust í 2-0 með 7 stiga framlengdum sigri í Reykjavík, 77-70.

Gangur leiks

Heimakonur mæta heldur betur vel stemndar til leiks og opna leikinn á fjögurra mínútna 12-0 áhlaupi. Valskonur svara þessu ágætlega, en ná lítið að vinna niður þá forystu sem Keflavík hafði skapað sér undir lok leikhlutans, sem endar 28-15. Eftir kröftuga byrjun leiksins voru lykilleikmenn beggja liða farnir að safna villum, Ásta Júlía Grímsdóttir hjá Val og Daniela Wallen og Karina Konstantinova úr liði Keflavíkur allar komnar með 2 villur eftir fyrstu 10 mínúturnar.

Enn bætir Keflavík við forystu sína í upphafi annars leikhlutans. Hald einnig áfram að spila hörku vörn þar sem að Valskonur virðist fyrirmunað að koma boltanum í körfuna löngum stundum. Loka fyrri hálfleiknum 23 stigum yfir, 47-24.

Daniela Wallen var ólíkt síðasta leik tengd sóknarlega fyrir Keflavík allt frá fyrstu sókn, en þegar í hálfleik var komið var hún með 17 stig. Í frekar döpru liði Valskvenna var Kiana Johnson stigahæst með 8 stig í hálfleik.

Valskonur gera gífurlega vel í upphafi þriðja leikhlutans að skera forskot heimakvenna niður í 12 stig á fyrstu 5 mínútunum, 51-39. Með nokkrum stórum körfum undir lok fjórðungsins nær Keflavík að berja það áhlaup á bak aftur og loka þeim þriðja 17 stigum yfir, 59-42.

Þrátt fyrir að minnka forskotið aðeins sjá gestirnir nánast aldrei til sólar í fjórða leikhlutanum. Keflavík er 23 stigum yfir þegar 5 mínútur eru eftir, 70-47 og klára leikinn með nokkuð öruggum 12 stiga sigri, 78-66.

Kjarninn

Með bakið upp við vegg var nákvæmlega þetta sú frammistaða sem Keflavík þurfti að sýna til þess að trú á því að þær ættu nokkurn möguleika á að koma til baka gæti orðið til. Að einhverju leyti hafa þær verið óheppnar í þessum fyrstu tveimur tapleikjum einvígis liðanna, þar sem að fyrsta leiknum tapa þær í leik sem þær voru lengur en ekki með góð tök og svo tapa þær öðrum leiknum í framlengingu. Geta þær komið til baka og unnið Íslandsmeistaratitilinn eftir að hafa grafið sér 0-2 holu í úrslitaeinvígi gegn sterku liði eins og Val? Verður að teljast líklegra eftir leik þar sem þær ná yfir 10 stiga forystu á fyrstu mínútum leiks og líta aldrei til baka.

Hvað svo?

Fjórði leikur liðanna er á dagskrá komandi föstudag 28. apríl í Origo Höllinni í Reykjavík.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -