Keflvíkingar eru Lengjubikarmeistarar kvenna 2014 eftir sigur á Val í æsispennandi úrslitaleik liðanna sem fram fór í Ásgarði í Garðabæ. Liðin skiptust á forystunni í leiknum og varð lokaspretturinn bráðfjörugur. Keflvíkingar höfðu að lokum 73-70 sigur en Valskonur fengu tækifæri til þess að koma leiknum í framlengingu en þriggja stiga skot þeirra vildi ekki niður og Keflvíkingar fögnuðu sigri.
Valskonur leiddu 23-16 eftir fyrsta leikhluta þar sem Joanna Harden reyndist Keflvíkingum erfið. Hún á eftir að brjóta nokkra ökkla í vetur enda kvik á fæti og með nokkrar baneitraðar gabbhreyfingar í vopnabúrinu.
Munurinn hoppaði fljótt upp í 10 stig í öðrum leikhluta, Valur leiddi 31-21 og einkenndist annar leikhluti af hörku og stífum varnarleik. Keflvíkingar kunnu betur og betur við sig með hverri mínútunni og náðu að minnka muninn í 31-26 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Keflavíkurvörnin hélt Val stigalausum síðustu tvær og hálfa mínútuna í öðrum leikhluta.
Joanna Harden var með 15 stig hjá Val í hálfleik og Ragnheiður Benónýsdóttir var með 4 stig og 5 fráköst. Hjá Keflavík var Sara Rún Hinriksdóttir með 9 stig og 6 fráköst og Carmen Tyson Thomas var með 5 stig og 5 fráköst.
Skífuþeytirinn vippaði greinilega smá stuði í Keflavíkurkonur í hálfleik því þær létu 29 stigum rigna yfir Val í þriðja leikhluta. Sara Rún fann fyrsta Keflavíkurþristinn og var almennt hárbeitt. Carmen Tyson Thomas var að keppast við lemja sig í gang og það virtist hafast. Vandamálið við leik Valskvenna var að þær áttu það til að horfa helst of mikið á Harden leika listir sínar svo Keflavík leiddi 49-55 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Fjórði leikhluti var konfekt, hnífjafn og spennandi. Harden bætti bara við og um leið og fleiri í liði Vals fóru að ógna færðust Hlíðarendakonur nærri. Fanney Lind minnkaði muninn í 64-65 með þrist og aftur var hún á ferðinni er hún kom Val yfir 68-67 eftir sóknarfrákast og körfu í teignum.
Guðbjörg Sverrisdóttir náði forystunni aftur fyrir Val 70-69 með stökkskoti við endalínuna en Hallveig Jónsdóttir var svellköld þegar hún kom Keflavík yfir 70-71 með stökkskoti þegar 15 sekúndur lifðu leiks. Lokasókn Valskvenna var eins og flestar sóknir þeirra í leiknum, byggð í kringum Harden og Keflavíkurvörnin var orðin þaulvön því að bregðast við henni og þvinguðu Harden í erfitt skot sem vildi ekki niður og þar með varð Valur að brjóta. Carmen Tyson Thomas setti niður bæði vítin, kom Keflavík í 70-73 og næsta þriggja stiga skot Vals fór ekki rétta leið svo Keflavík fagnaði sigri.
Flottur leikur hjá báðum liðum. Sara Rún sýndi enn eina ferðina hvers hún er megnug og Keflvíkingar urðu enn beittari þegar Carmen fór að láta að sér kveða. Hjá Val var Joanna Harden með stórleik eða 38 stig og 4 fráköst. Ragnheiður Benónýsdóttir gerði 10 stig og tók 7 fráköst og komst mjög vel frá leiknum. Aðrir lykilmenn Vals hefðu þurft að vera beittari en Ragna Margrét Brynjarsdóttir lenti snemma í villuvandræðum og komst ekki í almennilegan takt við leikinn.



