spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaKeflavík lagði Stjörnuna í kaflaskiptum leik á Sunnubrautinni

Keflavík lagði Stjörnuna í kaflaskiptum leik á Sunnubrautinni

Keflavík lagði Stjörnuna í Blue höllinni í kvöld í 15. umferð Subway deildar karla, 97-89. Eftir leikinn er Keflavík í 3.-4. sæti deildarinnar með 20 stig líkt og Þór á meðan að Stjarnan er í 7.-8. sætinu með 16 stig líkt og Höttur.

Leikurinn var nokkuð jafn á upphafsmínútunum, en Stjarnan virtist þó vera ná tökum á leiknum og leiddu þeir með 3 stigum þegar fyrsti fjórðungur var á enda, 22-25. Í öðrum leikhluta taka Keflvíkingar leikinn svo yfir, fara mest 15 stigum yfir um miðbygg annars leikhlutans, en Stjarnan nær aðeins að laga stöðuna fyrir lok fyrri hálfleiksins, 50-43.

Stjarnan nær svo að halda áfram þar sem frá var horfið í upphafi þriðja leikhlutans. Vinna niður forskot heimamanna og ná sjálfir að komast nokkrum stigum yfir. Með laglegum flautuþrist frá Urban Oman ná heimamenn þó að hanga á lítilli forystu inn í lokaleikhlutann, 76-75. Í þeim fjórða ná heimamenn að sigla aftur framúr og eru með 13 stiga forystu þegar 5 mínútur eru til leiksloka. Undir lokin hóta Stjörnumenn því að stela sigrinum, en Keflavík nær að halda út og vinna að lokum með 8 stigum, 97-89.

Atkvæðamestur fyrir Keflavík í leiknum var Remy Martin með 31 stig. Honum næstur var Halldór Garðar Hermannsson með 16 stig, en hann var +29 í +/- tölfræði í leiknum.

Fyrir Stjörnuna dró James Ellisor vagninn með 21 stigi og 8 fráköstum. Þá bætti Hlynur Bæringsson við 16 stigum og 10 fráköstum.

Keflavík á leik næst komandi fimmtudag 1. febrúar gegn Haukum í Ólafssal. Stjarnan leikur degi seinna föstudag 2. febrúar heima í Umhyggjuhöllinni gegn Val.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -