Keflavík lagði Grindavík í kvöld í Subway deild kvenna, 85-65. Eftir leikinn er Keflavík í 5. sæti deildarinnar með 12 stig á meðan að Grindavík er sæti neðar í 6. sætinu með 6 stig.
Fyrir leik
Liðin höfðu í tvígang mæst áður á tímabilinu þar sem að heimaliðið hafði sigur í bæði skipti. Keflavík vann heima með 20 stigum þann 20. október og Grindavík með 12 stigum heima þann 5. desember.
Vegna einangrunnar nokkurra leikmanna Grindavíkur gátu þær aðeins teflt fram átta leikmönnum í kvöld. Fengu hinsvegar ekki frestun á leikinn samkvæmt heimildum Körfunnar vegna þess að leikmennirnir féllu ekki undir nýjar frestunarreglur.
Gangur leiks
Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað. Þar sem liðin skiptust á snöggum áhlaupum. Um miðjan fyrsta leikhlutann sigla heimakonur þó framúr og eru 5 stigum yfir eftir fyrsta fjórðunginn, 23-18. Þrátt fyrir ágætis tilraunir gestanna ná heimakonur í Keflavík að halda í forystu sína út fyrri hálfleikinn, en þegar að liðin halda til búningsherbergja er 8 stiga munur, 41-33.
Stigahæst fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum var Daniela Wallen með 23 og fyrir gestian úr Grindavík var Robbi Ryan með 15 stig.
Leikurinn er svo áfram í nokkru jafnvægi í upphafi seinni hálfleiksins. Keflavík áfram skrefinu á undan í þriðja leikhlutanum þrátt fyrir nokkur álitleg áhlaup gestanna, 58-49 fyrir þann fjórða. Í lokaleikhlutanum sigla heimakonur svo vel framúr Grindavík og vinna leikinn að lokum mjög svo örugglega, 85-65.
Kjarninn
Leikurinn var að sjálfsögðu eins og allir leikir Keflavíkur þessa dagana, gífurlega mikilvægur í baráttu þeirra um sæti í úrslitakeppninni. Eins og staðan er núna er þær 2 stigum fyrir aftan Hauka í 4. sætinu, en Haukar eiga þó þrjá leiki til góða á þær.
Þrátt fyrir að vera fáliðaðar gerðu Grindavíkurkonur ansi vel í leiknum í kvöld. Héldu þessu nokkuð spennandi vel inn í lokaleikhlutann. Áttu hinsvegar engin svör við Daniela Wallen hjá Keflavík í leiknum, sem setti framlagsmet eins leikmanns í leik á tímabilinu með 53 framlagsstigum og virtist löngum stundum geta gert það sem henni datt í hug á báðum endum vallarins.
Tölfræðin lýgur ekki
Grindavík hefur verið með betri sóknarliðum tímabilsins til þessa. Flæðið þeirra þó ekki alveg nógu gott sóknarlega í þessum leik, gefa aðeins 16 stoðsendingar á móti 23 stoðsendingum Keflavíkur í leiknum.
Atkvæðamestar
Daniela Wallen var óstöðvandi fyrir Keflavík í kvöld með 35 stig, 14 fráköst, 6 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Þá skilaði Anna Ingunn Svansdóttir einnig 14 stigum og 5 fráköstum.
Fyrir Grindavík var Robbi Ryan best í kvöld með 27 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar. Þá bætti Hulda Björk Ólafsdóttir við 18 stigum og 5 fráköstum.
Hvað svo?
Bæði lið eiga leik næst þann 9. febrúar. Keflavík tekur á móti Val í Blue Höllinni og Grindavík fær Hauka í heimsókn.