spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaKeflavík lagði Breiðablik örugglega í Smáranum

Keflavík lagði Breiðablik örugglega í Smáranum

Keflavík lagði Breiðablik í Smáranum í kvöld í 2. umferð Subway deildar kvenna, 58-88. Eftir leikinn er Keflavík í efsta sæti deildarinnar með tvo sigra á meðan að Breiðablik er enn án sigurs eftir tvær fyrstu umferðirnar.

Gangur leiks

Heimakonur í Blikum eru með góð tök á leiknum á upphafmínútunum. Komast snemma í 9 stiga forskot, sem þær ná þó ekki alveg að halda út fyrsta fjórðunginn, en að honum loknum eru þær 3 stigum yfir, 23-20. Með áköfum varnarleik nær Keflavík að jafna leikinn undir lok fyrri hálfleiksins og eru 3 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Fyrir Keflavík var Daniela Wallen með 12 stig og Birna Benónýsdóttir 11 stig í fyrri hálfleiknum. Fyrir heimakonur var Isabella Ósk Sigurðardóttir komin með 11 stig.

Keflavík lætur svo kné fylgja kviði í upphafi seinni hálfleiksins. Opna þriðja leikhlutann á 15-5 áhlaupi og eru komnar með 13 stiga forystu þegar fjórðungurinn er hálfnaður. Aftur, var það mikið til að þakka ákafri pressu þeirra um allan völl. Þann mun nær Keflavík að halda í fram í fjórða leikhlutann, 46-59. Keflavík gerir svo endanlega út um leikinn í byrjun lokaleikhlutans, eru 19 stigum yfir þegar hann er hálfnaður, 50-69 og sigla að lokum nokkuð öruggum sigur í höfn, 58-88.

Tölfræðin lýgur ekki

Breiðablik tapaði 27 boltum í leik kvöldsins á meðan að Keflavík tapaði aðeins 15 boltum. Af þessum 27 töpuðu boltum Blika skoraði Keflavík 26 stig á meðan að Blikar náðu í aðeins 12 stig frá töpuðum boltum Keflavíkur.

Atkvæðamestar

Fyrir Keflavík var Daniela Wallen atkvæðamest með 21 stig, 10 fráköst og 7 stolna bolta. Henni næst var Birna Benónýsdóttir með 23 stig og 7 fráköst.

Fyrir heimakonur í Breiðablik var það Isabella Ósk Sigurðardóttir sem dró vagninn með 17 stigum, 10 fráköstum og Sabrina Haines skilaði 11 stigum, 8 fráköstum og 6 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst þann 5. október. Keflavík heima í Blue Höllinni gegn Haukum á meðan að Breiðablik heimsækja Grindavík í HS Orku Höllina.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -