spot_img
HomeFréttirKeflavík kom Tindastól aftur á jörðina (umfjöllun)

Keflavík kom Tindastól aftur á jörðina (umfjöllun)

Keflvíkingar áttu ekki í erfiðleikum með Tindastól í kvöld, lokatölur 72-91 og var sigur Keflvíkinga verulega sanngjarn. Tindastólsstrákarnir eru búnir að vera ansi heitir undanfarið en það er ljóst að eitthvað vantar upp á að liðið standi jafnfætis sterkustu liðunum í deildinni. 
 
 

Keflvíkingar voru fyrri af stað úr ráspólunum og náðu smá forskoti strax í byrjun en Tindastólsliðið var þó ekki langt á eftir og fyrsti leikhluti var nokkuð jafn. Það var ekki fyrr en í lok leikhlutans sem Keflvíkingar náðu smá forskoti þegar Maggi Gunnars kláraði leikhlutann með einum þrist og gaf þannig smá sýnishorn á því sem var í vændum. Staðan 20-25 eftir fyrsta leikhluta. 

 

Keflvíkingar mættu í annan leikhluta með allar byssur á lofti. Það skipti engu máli hverju þeir hentu í loftið eða hvaðan, það fór allt ofan í. Maggi Gunnars dritaði á færi og virtist ekki einu sinni þurfa að horfa á körfuna á köflum, Valur Orri Vals Ingimundar virðist líka hafa erft eitthvað af skothæfileikum föður síns og setti niður nokkra góða og þá kom Halldór Halldórs með nokkra úr eftirvagninum. 

 

Tindastólsstrákarnir vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið og leikmenn liðsins voru hálfslegnir og illa áttaðir eftir þessa flugeldasýningu Keflvíkinga. Jafnvel reyndustu leikmenn Stólanna fóru að gera barnaleg mistök og Keflvíkingar gengu á lagið. Þrátt fyrir það þá voru Stólarnir svo sem ennþá inn í leiknum þegar liðin gengu til búningsklefa í hálfleik, staðan 34-50 og það hefur nú alveg gerst í körfuboltanum að lið nái að snúa þeim mun sér hag. 

 

En því miður fyrir Tindastólsstrákana þá voru Keflvíkingar ekkert hættir að drita í þriðja leikhluta og leikurinn breyttist í létta skotæfingu fyrir Val Orra og Magga, og á köflum var Maggi meira að segja hættur að nenna að yfir miðju til að taka sum skotin. 

 

Tindastólsliðið fór í þann pakka að fara í hlaupandi körfubolta en það var mjög langt frá því að ganga upp og staðinn var boðið upp á sýningu í því hvernig skal tapa körfubolta með sem frumlegustum hætti og hvernig á að klúðra sniðskotum. Hægrihandar sniðskot, vinstrihandar sniðskot, framan á körfuna sniðskot, troðslusniðskot, loftboltasniðskot, ekkert fór ofan í og ekki var liðið langt á þriðja leikhluta þegar öllum í Skagafirði og jafnvel sumum úr Akrahreppi var ljóst í hvað stefndi. 44-71 var staðan eftir þrjá leikhluta og líklega hefðu allir verið sáttir með að flauta leikinn bara af þá. 

 

Tindastólsliðið hélt áfram að hlaupa í fjórða leikhluta og inn komu ungir og sprækir strákar eins og Ingvi Ingvarsson og Loftur Eiríks sem sýndu fín tilþrif. Keflvíkingar gáfu eftir og tóku upp á því að klúðra einu og einu skoti en það er svona á mörkunum að sé hægt að segja að körfuknattleikur hafi verið spilaður í fjórða leikhluta. Lokatölur eins og áður sagði 72-91. 

 

Keflvíkingar sáttir með sitt væntanlega, spiluðu vel, áttu fína spretti í vörninni og ef þeir ætla að skjóta svona það sem eftir er móts þá eru varla margir sem halda í við þá. Bestir í liði Keflvíkinga voru Maggi Gunnars og Valur Orri sem mættu með miðið vel stillt og gaman að sjá að Valur hefur náð að bæta sig smá frá því að hann byrjaði að drippla körfubolta í íþróttahúsinu á Sauðárkróki fyrir svona áratug síðan. 

 

Hörð lending fyrir Tindastólsstrákana sem voru rifnir rækilega niður á jörðina í kvöld. Áhyggjuefni kannski hjá liðinu hvað örvæntingin var fljót að hríslast um liðið þegar skotin fóru að detta hjá Keflvíkingum en það er allavega nóg sem Tindastólsliðið þarf að laga fyrir undanúrslitaleikinn á móti KR. Eigilega eini ljósi punkturinn fyrir stuðningsmenn Tindastóls var að handboltinn seinkaði Útsvarinu þannig að Útsvarið var ekki byrjað þegar leiknum lauk. Skástir í liði Tindastóls voru líklega Svavar og Rikki en það verður nú ekki hjá því komist að benda á að Curtis og Luttman áttu virkilega erfiðan leik. 

Tölfræði leiksins er að finna hér.

Myndasafn eftir Hjalta Árnason má finna hé

Mynd: Hjalti Árnason

Umfjöllun: Björn Ingi

Fréttir
- Auglýsing -