spot_img
HomeFréttirKeflavík kærir - Dómarar eiga að leiðrétta

Keflavík kærir – Dómarar eiga að leiðrétta

 Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur lagt fram kæru á framkvæmd leiks kvennaliðs þeirra gegn Njarðvík í bikarkeppninni á dögunum.  Leikurinn endaði með sigri Njarðvíkur 78:72 eftir framlengingu en ástæða kærunnar mun vera vegna lokasekúndna í leiknum sem var nokkuð skrautlegur.
Þegar um 40 sekúndur eru eftir af leiknum brýtur Jaleesa Butler á Petrúnellu Skúladóttir á miðjum velli. Taflan sýndi að komnar væru 5 liðsvillur á Keflavík og það þýddi að Petrúnella hefði átt að fara á línuna. Eftir dómarar ráðfærðu sig við skýrslu leiksins kom í ljós að þetta var aðeins 4. liðsvilla Keflavíkur. Þannig að Njarðvík fékk innkast í stöðunni 66:67 Keflavík í vil. Þar á eftir missa Njarðvíkustúlkur boltann í hendurnar á Keflavíkurstúlkum og nokkuð seinna þá missa Keflavík boltann útaf. Þegar þarna er komið við sögu á Njarðvík innkast og tæpar 8 sekúndur eftir af leiknum.  
 
Dómarar leiksins virtust ekki vera vissir í sök sinni um hvort rétt ákvörðun hafi verið tekin varðandi liðsvilluna, þ.e. hvort þetta hafi verið 4. eða 5. liðsvillan og fara aftur á ritaraborðið til að leita af sér allan grun.  Út úr því kom svo að villan hafi verið sú 5. og Petrúnella Skúladóttir fer á línuna og fær sín víti. Hún jafnar leikinn í 67:67, sum sé hitti úr öðru vítinu. 
 
Leikurinn fór svo í framlengingu þar sem Njarðvík tók öll völd og sigraði sem fyrr segir. 

Samkvæmt
leikreglum eiga dómarar leiðrétta mistök sem varða að vítaskot hafi ekki verið veitt sem átti að veita, en einungis ef bolti hefur ekki farið oftar en einu sinni í leik.  Ef vafi er á að leikskýrsla sé rétt er dómara heimilt að leita upplýsinga hjá hverjum sem er, t.d.  hjá tölfræðingi eða upptökubúnaði, en til að breyta skýrslu þarf dómari að vera alveg viss í sinni sök. 
 
Keflvíkingar vilja sem minnst tjá sig um kæruna að svo stöddu þegar samband var haft við þá.
 
Fréttir
- Auglýsing -