spot_img
HomeFréttirKeflavík kæfði Skallagrím á afmælisdaginn

Keflavík kæfði Skallagrím á afmælisdaginn

Keflavík skildi Skallagrím eftir í toppbarátunni með frábærum sigri í Borgarnesi í dag. Skallagrímur hafði tögl og haldir á leiknum í fyrri hálfleik en allt annað lið kom til leiks í seinni hálfleik. Algjörlega frábær varnarleikur Keflavíkur gerði Skallagrím erfitt fyrir og unnu gestirnir á endanum nokkuð öruggan og sanngjarnan 55-68 sigur.

 

Keflavík spillti þar með afmælishátíð Skallagríms sem fagnaði 100 afmæli í dag en gestir þessarar veislu gáfu afmælisbarninu ekki nokkra afmælisgjöf.

 

Þáttaskil.

Án þess að taka neitt af Keflavík þá var Skallagrímsliðið eins og Dr. Jekyl and Hyde líkt og Manuel Rodriquez þjálfari liðsins sagði eftir leik. Liðið spilaði fínan varnarleik í fyrri hálfleik og stjórnuðu leiknum. Allt annað lið kom inná í seinni hálfleik og vann Keflavík hálfleikinn 39-21. Keflavík spilaði heilt yfir bestu vörn sem undirritaður hefur séð í vetur. Skiptu á boltahindrunum til að byrja með en fóru í harða pressuvörn þar sem ekki millimetri af svæði var gefinn. Skallagrímur nýtti alla skotklukkuna í flestum sóknum í seinni hálfleik og þröngvuðu svo slöku skoti að lokum. Keflavík gerði það sem gera þurfti sóknarlega og voru mun skynsamari eins og reynslumikið lið. 

 

Tölfræðin lýgur ekki. 

Haldið ykkur, Skallagrímur tapaði 29 boltnum í leiknum og þar af 19 í  seinni hálfleik. Keflavík tapaði einungis 17 og má segja að þarna tapist leikurinn. Keflavík átti einnig fleiri stoðsendingar og hitti mun betur. Skallagrímur vann frákasta baráttuna en gáfu of mörg sóknarfráköst til Keflavíkur miðað við hæðarmun. 

 

Hetjan.

Frammistöðu dagisins má kenna í skólum sem skólabókardæmi um liðsheilarsigur. Hver og einn einasti leikmaður sem steig inná í Keflavíkurbúning var tilbúinn að skilja allt eftir á vellinum. Baráttan og eljan var til hreinnar fyrirmyndar, allir leikmenn lögðu eitthvað til og höfðu sjálfstraust til að taka á skarið sóknarlega og varnarlega. Ariana Moorer átti virkilega góðan leik fyrir Keflavík, var með 25 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. Auk þess náði hún ítrekað að splúndra vörn Skallagríms með hraða sínum og búa til færi fyrir liðsfélaga sína. 

 

Kjarninn.

Körfuboltaáhugamenn um allt land skulu gjöra svo vel að taka Keflavík alvarlega í toppbaráttunni. Það er ekki hægt að tala um þetta lið sem bara efnilegt heldur eru þessar stelpur orðnar frábærar í körfubolta. Það var ekki að sjá í dag hvort liðið var með fleiri leiki í efstu deild og reynslu á bakinu. Leikmenn Skallagríms sem hafa margir mikla reynslu gerðu sig seka um hörmuleg tæknimistök og andlegt þrot í seinni hálfleik. Á meðan var hið unga lið Keflavíkur að leika á öllum hjólum og gáfu ekkert eftir. 

 

Sigrún Sjöfn hélt uppi sóknarleik Skallagríms meirihluta leiksins en Tavelyn Tillman fór ekki að skora fyrr en í seinni hálfleik. Borgnesingar eru með frábært lið á pappírunum en alltof margir leikmenn liðsins eru að spila svo langt frá sínu besta að það er grátlegt. 

Sigur Keflavíkur í dag var fyllilega sanngjarn og ljóst að liðið er ótrúlega vel þjálfað. Það vita allir leikmenn hvers til þeirra er ætlast og spila allar með stórt Keflavíkurhjarta. Sóknarleikur þeirra í dag var ekki frábær en stórkostlegur varnarleikur var nóg til að landa þessum sigri. Keflavík varð þar með fyrsta liðið sem vinnur í Borgarnesi í vetur sem gerir sigurinn enn stærri fyrir þær.

 

Myndasafn úr leiknum.

Tölfræði leiksins

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

Mynd / Ómar Örn Ragnarsson – Emelía Ósk var frábær fyrir Keflavík í dag

Fréttir
- Auglýsing -