spot_img
HomeFréttirKeflavík Íslandsmeistari í unglingaflokki kvenna eftir ótrúlegar lokamínútur

Keflavík Íslandsmeistari í unglingaflokki kvenna eftir ótrúlegar lokamínútur

Keflavík tryggði sér íslandsmeistaratitilinn í unglingaflokki kvenna eftir ótrúlegan og æsispennandi leik.  Keflavík tryggði sér framlengingu í leiknum með körfu á lokasekúndum leiksins en dómarar leiksins þurfti að nýta sér upptöku af leiknum til þess að vera vissir um að karfan væri gild.  Keflavík náði sér svo í aðra framlengingu þegar 7 sekúndur voru eftir af þeirri fyrstu af vítalínunni og höfðu á endanum betur í ótrúlegum spennuleik, 94-105.  Keflavík sýndi styrk sinn og seiglu í leiknum gegn frábæru liði Snæfells sem var aðeins sekúndubrotum frá því að vinna tvöfalt í unglingaflokki kvenna í ár þar sem liðið varð Bikarmeistari fyrr í vetur.   
Maður leiksins var valin Sandra Lind Þrastardóttir sem átti stórkostlegan leik með 32 stig, 23 fráköst, þar af 10 sóknarfráköst, 5 stolna bolta og 5 stoðsendingar sem skilaði henni 49 í framlagsstig.  

Hólmarar fengu óskabyrjun í DHL-Höllinni þar sem sinn hvor þristurinn frá Berglindi Gunnarsdóttur og Björgu Guðrúnu Einarsdóttur rötuðu rétta leið og skömmu síðar var Berglind aftur á ferðinni fyrir utan þriggja stiga línuna og komu Hólmurum í 6-13. Hildur Björg Kjartansdóttir var svo sett til höfuðs Söru Rún Hinriksdóttur í Keflavíkurliðinu en fyrr í dag með 10. flokki Keflavíkur hafði Sara sett niður 30 stig og tekið 10 fráköst og ekki úr vegi fyrir Hólmara að hafa góðar gætur á henni.

Áfram duttu Snæfellsþristarnir, Björg Guðrún kom Snæfell í 8-16 og Ellen Alfa splæsti í fimm stiga bunu fyrir Hólmara og staðan 11-23 en Keflavík átti lokaorðið í leikhlutanum og staðan 13-23 fyrir Snæfell eftir fyrstu tíu mínútur leiksins. Nýting Keflavíkur í fyrsta leikhluta var afleit og þær brenndu t.d. af öllum fimm þristunum sínum í upphafshlutanum á meðan Hólmarar voru heitir.

Keflvíkingar mættu dýrvitlausir inn í annan leikhluta og með Söndru Lind Þrastardóttur í broddi fylkingar réðust þær á forskot Snæfells og hökkuðu það í sig. Hólmarar gerðu sín fyrstu stig í öðrum hluta eftir tvær og hálfa mínútu og þær Sara Mjöll og Hildur Björg voru báðar komnar í bullandi villuvandræði í liði Snæfells eftir 13 mínútna leik. Loks komust Keflvíkingar yfir í fyrsta sinn þegar Sandra skoraði og fékk villu að auki, 26-25.

Þegar leið á annan leikhluta rönkuðu Hólmarar við sér og fóru að klóra í bakkann, Björg Guðrún skoraði erfiða körfu og fékk villu að auki og Snæfell leiddi svo 34-38 í leikhléi þó Keflavík hafi unnið annan leikhluta 21-15 þar sem Sandra Lind var svakaleg.

Hólmarar opnuðu síðari hálfleik með látum, tóku 9-0 áhlaup á fyrstu tveimur mínútum síðari hálfleiks og fyrstu Keflavíkurstigin litu ekki dagsins ljós fyrr en eftir tæplega þriggja mínútna leik í síðari hálfleik. Snæfell komst í 36-51 áður en Keflvíkingar tóku til sinna ráða. Keflavík svaraði í sömu mynt, þ.e. settu 9-0 dembu á Hólmara og minnkuðu muninn í 45-51. Hólmarar áttu þó lokasprettinn í þriðja leikhluta og þar setti Berglind Gunnarsdóttir stóran þrist um leið og leikhlutanum lauk og Hólmarar héldu inn í fjórða leikhluta í stöðunni 51-59 eftir að hafa unnið leikhlutann 21-17.

Snæfellingar fengu smá kjaftshögg í upphafi fjórða leikhluta, Sara Mjöll Magnúsdóttir fékk þá sína fimmtu villu fyrir litlar sakir og það fannst Inga Þór þjálfara Hólmara broslegt og fékk tæknivíti fyrir vikið og Keflvíkingar elfdust fyrir vikið og minnkuðu muninn í 61-63. Hildur Björg tók á rás við þetta í liði Snæfells og með fjórum stigum í röð frá henni voru Hólmarar komnir með tíu stiga forskot, 63-73 þegar tvær mínútur voru til leiksloka. 

Keflvíkingar voru ekki af baki dottnir og gerðu m.a. 5 stig á hálfri mínútu og náðu að minnka muninn í 71-73 með 8-0 dembu þegar 44 sekúndur voru til leiksloka. Næstu sekúndur virtust Keflvíkingar í hálf vonlausri stöðu, Hólmarar komnir með skotrétt og virtust eiga sigurinn vísan og þegar Björg Guðrún náði risavöxnu sóknarfrákasti fyrir Hólmara í stöðunni 73-76 virtust Keflvíkingum allar bjargir bannaðar. 

Keflavík braut strax eftir sóknarfrákastið og Hólmarar misnotuðu bæði vítin en það sem tók við var mögnuð uppákomu því þegar 2,9 sekúndur voru eftir átti Sara Rún Hinriksdóttir tvö víti í liði Keflavíkur og staðan 73-76 fyrir Snæfell. Sara hitti úr fyrra vítinu og minnkaði muninn í 74-76 og brenndi viljandi af síðara vítinu, Keflavík náði sóknarfrákastinu og skoti sem geigaði en þær náðu aftur sóknarfrákastinu og skoruðu… en var karfan gild?

Mikil reikistefna varð í DHL-Höllinni og dómarar leiksins fóru dágóða stund afsíðis til að fá að sjá videoupptökur frá lokasekúndunum til að gera skorið úr um það hvort karfan hafi verið gild eiður ei. Eftir um 15 mínútna hlé var karfan dæmd gild! Staðan því 76-76 og framlengja varð leikinn.

Snæfell byrjaði fyrri framlenginuna mjög vel og skoruðu 6 stig áður en Keflavík náði að svara, 82-76.  Keflavík hleypti þeim þó ekki lengra en svo og minnkaði svo muninn smám saman þegar leið á framlenginguna.  Keflavík minnkaði muninn niður í tvö stig í stöðunni 86-84.  Ellen Alfa Högnadóttir setti niður sniðskot þegar 30 sekúndur voru eftir, 88-84 en aftur tókst Keflavík að koma til baka.  Þær skoruðu seinustu 4 stig framlengingarinnar en seinustu stigin skoraði Sara Rún af vítalínunni eftir að Berglind braut á henni þegar 7 sekúndur voru eftir, það var fimmta villa Berglindar og var því fjórði leikmaður Snæfells sem fór útaf með 5 villur.  Seinasta tilraun Snæfells geigaði og því þurfti að framlengja leikinn á ný, 88-88. 

Það var Keflavík sem reyndist sterkari í annari framlengingu og nýttu vítaskotin sín vel sem reyndist Snæfell erfiðara.  Keflavík komst yfir í stöðunni 91-92.  Sara Rún og Lovísa Falsdóttir stálu svo sitt hvorum boltanum eftir innkast undir körfu Snæfells  á örskömmum tíma þegar um það bil tvær mínútur voru eftir.  Keflavík náði uppúr því í gott forskot sem var orðið 10 stig þegar ein og hálf mínúta var eftir, 92-102.  Það reyndist Snæfelli of stór munur sem tókst ekki að minnka muninn eftir það og Keflavík fagnaði sigri, 94-105 

Stigahæst í liði Keflavíkur var Sara Rún Hinriksdóttir með 35 stig og 10 fráköst en næstar voru Sandra Lind Þrastardóttir með 32 stig og 23 fráköst og Bríet Sif Hinriksdóttir með 15 stig og 6 fráköst.  Í liði Snæfells var Berglind Gunnarsdóttir með 24 stig og 12 fráköst en næstar voru Hildur Björg Kjartansdóttir með 23 stig og 9 fráköst og Björg Guðrún Einardóttir með 19 stig, 9 stoðsendingar og 7 fráköst.  

Gangur leiksins
13-23, 34-38, 51-59, 76-76, 88-88, 94-105 

[email protected] / [email protected] 

Fréttir
- Auglýsing -