spot_img
HomeFréttirKeflavík Íslandsmeistari í unglingaflokki kvenna

Keflavík Íslandsmeistari í unglingaflokki kvenna

Keflvíkingar eru Íslandsmeistarar í unglingaflokki kvenna eftir sigur á grönnum sínum úr Njarðvík í DHL Höllinni. Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en magnaður þriðji leikhluti Keflvíkinga gerði út um vonir Njarðvíkinga. Lokatölur voru 61-70 fyrir Keflavík og var miðherjinn Sandra Lind Þrastardóttir valin besti maður leiksins með 21 stig, 16 fráköst og 3 stoðsendingar.
 
Keflvíkingar voru beittari á upphafsmínútunum og komust í 8-11, varnarleikur þeirra sló taktinn fínt fyrstu mínúturnar en Njarðvíkingar bitu alltaf meira og meira frá sér. Ingunn Embla Kristínardóttir fann sig vel í fyrsta leikhluta og skoraði 7 stig fyrir Keflavík, Njarðvíkingar létu þó ekki stinga sig af og Ásdís Vala Freysdóttir kom Njarðvík yfir 16-15 með þriggja stiga körfu en Keflvíkingar áttu lokaorðið og leiddu 16-17 eftir fyrsta leikhluta.
 
Eva Rós Guðmundsdóttir hrökk í gang í Njarðvíkurliðinu í öðrum leikhluta og setti fimm stig í röð fyrir Njarðvíkinga. Annar leikhluti var hnífjafn en í stöðunni 23-24 slitu Keflvíkingar sig aðeins frá og leiddu 25-29 í hálfleik og unnu annan leikhluta 12-9.
 
Ingunn Embla og Sandra Lind voru báðar með 7 stig hjá Keflavík í hálfleik en Eva Rós Guðmundsdóttir var með 10 stig í Njarðvíkurliðinu.
 
Erna Hákonardóttir opnaði síðari hálfleik fyrir Njarðvíkinga með þriggja stiga körfu en hún virtist fara þversum ofan í hvítar því Keflvíkingar vöknuðu með látum og skoruðu níu stig í röð og komust í 28-38. Flestar ljóstýrur sem komu hjá Njarðvík í þriðja hluta voru kæfðar í fæðingu, Guðlaug Björt skoraði og fékk villu að auki en Keflvíkingar svöruðu því strax og svona gekk þetta fyrir sig og Sandra Lind fór þar fremst í flokki Keflavíkur. Henni héldu fá bönd og sérstaklega þegar Keflvíkingar komu á hana boltanum í teignum, það endaði yfirleitt á einn veg… með körfu hjá Söndru.
 
Keflavík fann öll götin á Njarðvíkurvörninni í þriðja leikhluta og unnu þessar tíu mínútur 27-16 og leiddu 41-56 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Keflvíkingar bættu gráu ofan á svart fyrir Njarðvíkinga strax í upphafi fjórða leikhluta er þær skelltu niður þrist og breyttu stöðunni í 41-59. Njarðvíkingar náðu að minnka muninn í 11 stig en komust lítt nærri, Keflvíkingar gerðu vel að halda þeim frá sér og lokuðu leiknum 61-70 og fögnuðu vel og innilega Íslandsmeistaratitli sínum.
 
Sandra Lind Þrastardóttir landaði 35 framlagsstigum í dag í liði Keflavíkur með 21 stig, 16 fráköst, 3 stoðsendingar og 2 stolna bolta. Þær Emelía Ósk og Eva Rós voru svo stigahæstar í Njarðvíkurliðinu báðar með 16 stig og Eva auk þess 10 fráköst.
 
 
Mynd og umfjöllun/ [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -