spot_img
HomeFréttirKeflavík Íslandsmeistari í stúlknaflokki

Keflavík Íslandsmeistari í stúlknaflokki

 
Keflavík er Íslandsmeistari í stúlknaflokki 2011 og þar með er félagið orðið handhafi allra Íslandsmeistaratitla í kvennaflokki þetta árið! Magnaður árangur hjá Keflvíkingum en Stúlknaflokkur félagsins var ekki í vandræðum með granna sína úr Njarðvík og höfðu öruggan sigur í leiknum, lokatölur 64-43 Keflavík í vil þar sem Eva Rós Guðmundsdóttir var valin besti maður leiksins með 8 stig, 19 fráköst og 6 stoðsendingar. Myndasafn úr leiknum
Keflvíkingar byrjuðu af krafti og komust í 7-0 og Sverrir Þór tók leikhlé fyrir grænar. Leikhléið hafði fín áhrif því Njarðvíkingar ruku út á völl og skelltu niður þriggja stiga körfu en þar var Ína María Einarsdóttir að verki. Lovísa Falsdóttir átti þó lokaorðið fyrir Keflvíkinga í fyrsta leikhluta er hún setti þrist og Keflvíkinar leiddu 19-8 að loknum fyrsta hluta.
 
Njarðvíkingar voru stirðir í sínum sóknaraðgerðum í fyrri hálfleik og nýtingin dræm gegn sterkri Keflavíkurvörn sem einnig var einráð og alvöld í frákastabaráttunni, 36 gegn 18 hjá Njarðvík í fyrri hálfleik. Keflvíkingar voru með þægilega forystu þegar liðin gengu til hálfleiks í stöðunni 31-15 Keflavík í vil og Sara Rún Hinriksdóttir með 10 stig og 6 fráköst í liði Keflavíkur en Ína María Einarsdóttir með 7 stig og 3 fráköst í liði Njarðvíkinga.
 
Njarðvíkingar gerðu fimm fyrstu stigin í þriðja leikhluta og minnkuðu muninn í 31-20 áður en Keflvíkingar tóku við sér. Þriðji leikhluti var jafn og einkenndist af fínni baráttu og þegar honum lauk var staðan 48-31 Keflavík í vil og fóru þessar 10 mínútur 16-16 en Njarðvíkingar urðu að gera betur til að komast nærri Keflavík í fjórða og síðasta leikhluta.
 
Munurinn var einfaldlega orðinn of mikill í fjórða leikhluta, Njarðvíkingar skoruðu ekki fyrstu þrjár mínútur leikhlutans og þegar Eva Rós Guðmundsdóttir setti þrist og jók mun Keflavíkurliðisins upp í 20 stig, 55-35, þá var björninn endanlega unninn þó enn væru sex mínútur eftir af leiknum. Lokatölur reyndust svo 64-41 Keflavík í vil og í höfn glæsilegur árangur félagsins.
 
Sandra Lind Þrastardóttir var stigahæst í liði Keflavíkur í dag með 13 stig og 8 fráköst en besti maður leiksins, Eva Rós Guðmundsdóttir gerði 8 stig, tók 19 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Hjá Njarðvík var Ína María Einarsdóttir með 16 stig og 4 fráköst og Andrea Björt Ólafsdóttir gerði 7 stig og tók 12 fráköst.
 
,,Þetta er mikill heiður og við vorum meðvitaðar um að þetta væri hægt og ég skal alveg viðurkenna að það var smá pressa á okkur fyrir þennan leik,“ sagði Eva Rós Guðmundsdóttir sigurreif eftir sigur Keflavíkur á Njarðvík í stúlknaflokki í dag. Fyrir leikinn var þessi viðureign síðasta púslið hjá Keflavík í stórglæsilegum árangri klúbbsins sem nú situr á Íslandsmeistaratitlum í öllum kvennaflokkum!
 
,,Ég hef æft vel undanfarið og við erum nokkrar sem spilum í unglingaflokki og æfum líka með meistaraflokki gegn stærri og sterkari leikmönnum og græðum á því,“ sagði Eva Rós sem um síðustu helgi var líka valin besti leikmaður Keflavíkurliðsins í unglingaflokki þegar liðið varð Íslandsmeistari eftir spennusigur á Snæfell.
 
,,Nú klára ég bara prófin og er ekki með neitt annað planað en það,“ sagði Eva Rós aðspurð um hvort hún væri eitthvað farin að gjóa augunum í átt að námi erlendis eða öðru slíku. ,,Næst á dagskrá eru bara prófin og svo æfingar í Stykkishólmi fyrir Norðurlandamótið í Svíþjóð.“
 
Ljósmyndir/ Tomasz Kolodziejski – [email protected]  
 
Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -