Keflvíkingar eru Íslandsmeistarar í 9. flokki kvenna eftir jafnan og spennandi úrslitaleik gegn Breiðablik í Smáranum. Þar með er loknu fullkomnu tímabili hjá Keflvíkingum í 9. flokki sem töpuðu ekki einum einasta leik þennan veturinn. Ingunn Embla Kristínardóttir leikmaður Keflavíkur var valin besti maður leiksins með 14 stig, 11 fráköst, 7 stolna bolta og 4 stoðsendingar. Keflavík og Breiðablik mættust einnig í bikarúrslitum fyrr á tímabilinu þar sem Keflvíkingar höfðu einnig betur 56-44.
Keflvíkingar byrjuðu með látum og Ingunn Embla Kristínardóttir kom Keflvíkingum í 2-8 með þriggja stiga körfu. Bæði lið beittu svæðisvörn í leiknum, Keflvíkingar í 2-3 svæði en Blikastúlkur í 3-2 svæði. Liðin héldu sig við þessi varnarafbrigði lungann úr leiknum og pressuðu líka. Bensíndropinn var því orðinn ansi dýr á lokasprettinum.
Keflvíkingar voru heitir í upphafi leiks og komust í 6-14 þegar Sævaldur Bjarnason þjálfari Blika tók leikhlé. Eitthvað hefur Sævaldur náð til sinna leikmanna því Blikar komu út úr leikhléinu og minnkuðu muninn í 14-18 eftir þriggja stiga körfu frá Helenu Mikaelsdóttur. Það voru þó Keflvíkingar sem höfðu yfirhöndina eftir fyrsta leikhluta 16-21.

Í öðrum leikhluta fór pressuvörn Breiðabliks að bera ávöxt og Kópavogsstelpur færðust nær uns þær náðu að jafna í stöðuna 22-22. Blikar komust síðar yfir í leikhlutanum 28-26 en það voru Keflvíkingar sem leiddu þó í hálfleik 32-30 eftir hraðaupphlaupskörfu á lokasekúndunum þar sem Sara Rún Hinriksdóttir skoraði af öryggi úr sniðskotinu.
Ingunn Kristínardóttir var komin með 9 stig og 5 fráköst í hálfleik fyrir Keflavík en Hallveig Jónsdóttir var með 8 stig og 10 fráköst í liði Blika.
Blikar voru ekki lengi að jafna metin í þriðja leikhluta en það gerði Hallveig Jónsdóttir með þriggja stiga körfu og staðan 36-36. Liðin héldu áfram að pressa en voru nokkuð varkárari með boltann en það sást bersýnilega að þreytan var farin að segja til sín. Þegar leið á fjórða leikhluta skiptu Keflvíkingar yfir í nýtt varnarafbrigði, box – 1, þar sem áhersla var lögð á að klippa Hallveigu Jónsdóttur út úr sóknum Blika en hún var að reynast Keflvíkingum þungur ljár í þúfu.
Þó ný vörn væri kominn á koppinn hjá Keflavík skoraði Hallveig fjögur síðustu stig Breiðabliks í leikhlutanum en það voru samt Keflvíkingar sem leiddu 44-45 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Sara Rún Hinriksdóttir setti tóninn fyrir Keflvíkinga í upphafi fjórða leikhluta en þristur frá Söru breytti stöðunni í 44-50 Keflavík í vil. Blikar tóku leikhlé í kjölfarið en virtust ekki eiga svar fyrir Hallveigu gegn Box-1 vörn Keflavíkur.
Sara Rún var aftur á ferðinni er hún jók muninn í 46-52 fyrir Keflavík en hún setti nokkrar stórar körfur í kvöld sem skiptu gríðarlegu máli og voru til þess fallnar að halda Blikum fyrir aftan Keflavík.
Á lokasprettinum vildu skotin ekki niður hjá Blikum, Keflvíkingar stigu vel út og létu Blika ekki taka mörg sóknarfráköst. Að lokum fór svo að Keflavík hafði góðan 53-64 sigur þar sem Thelma Hrund Tryggvadóttir setti niður þrist fyrir Keflvíkinga um leið og leiktíminn rann út.
Þrír leikmenn Keflavíkur voru jafnir og stigahæstir með 14 stig en það voru þær Ingunn Embla Kristínardóttir, Sara Rún Hinriksdóttir og Katrín Fríða Jóhannsdóttir. Ingunn Embla var svo valin besti maður leiksins með 14 stig, 11 fráköst, 7 stolna bolta og 4 stoðsendingar.
Hjá Breiðablik var Hallveig Jónsdóttir með tröllatvennu, 16 stig og 15 fráköst en henni næst var Birta Björk Arnardóttir með 11 stig og 5 fráköst.
Ljósmyndir/ Tomasz Kolodziejski




