spot_img
HomeFréttirKeflavík Íslandsmeistari í 9. flokki kvenna

Keflavík Íslandsmeistari í 9. flokki kvenna

Keflvíkingar eru Íslandsmeistarar í 9. flokki kvenna eftir öruggan sigur á stöllum sínum úr Grindavík í úrslitaleik flokksins. Viðureignin fór fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík þar sem Keflavík tók forystuna snemma og leit aldrei um öxl. Lokatölur reyndust svo 51-20 þar sem Kristrún Björgvinsdóttir var valin besti leikmaðurinn með 8 stig, 7 fráköst, 3 stoðsendingar, 3 stolna bolta og 2 varin skot.
Keflvíkingar byrjuðu með látum eins og þeirra var von og vísa og gerðu tíu fyrstu stig leiksins áður en Helga Kristinsdóttir náði að gera fyrstu stig Grindavíkur í leiknum. Gular fóru að leika svæðisvörn og það kunnu Keflvíkingar að meta og settu þrjá þrista á Grindavík í leikhlutanum og leiddu 17-6 eftir fyrsta leikhluta.
 
Keflvíkingar rifu niður hvert sóknarfrákastið á fætur öðru og Grindvíkingar sáu muninn aukast fyrir vikið. Í stöðunni 19-6 fyrir Keflavík höfðu Keflvíkingar náð 9 sóknarfráköstum en aðeins 7 varnarfráköstum! Keflavík leiddi svo 27-10 í hálfleik og unnu annan leikhluta 10-4 þannig Grindvíkingar höfðu bætt vörnina í öðrum leikhluta en áttu þó langt í land.
 
Hjá Keflavík var Kristrún Björgvinsdóttir komin með 8 stig en Helga Guðrún Kristinsdóttir með 8 stig í liði Grindavíkur.
 
Liðunum gekk ekkert að skora í upphafi síðari hálfleiks en þegar leið á losnaði aðeins um hömlurnar en Keflvíkingar voru áfram mun betri og unnu leikhlutann 12-3 og staðan því 39-13 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Keflvíkingum gekk vel fyrstu þrjá leiklutana að halda Ingibjörgu Sigurðardóttur í skefjum en hún tók góðar rispur fyrir Grindavík í fjórða leikhluta en það var of lítið og of seint. Lokatölur reyndust 51-20 fyrir Keflavík þar sem Svanhvít Ósk Snorradóttir átti lokaorðið fyrir Keflavík með þrist sem fór í spjaldið og ofaní.
 
Helga Guðrún Kristinsdóttir var stigahæst hjá Grindavík með 11 stig og 8 fráköst og Ingibjörg Sigurðardóttir bætti við 9 stigum og 11 fráköstum. Hjá Keflavík var Laufey Rún Harðardóttir með 15 stig, Kristrós Jóhannsdóttir bætti við 11 stigum og 6 fráköstum og Kristrún Björgvinsdóttir var með eins og áður segir 8 stig, 7 fráköst, 3 stoðsendingar, 3 stolna bolta og 2 varin skot.
 
Gangur leiksins:
17-6, 27-10, 39-13, 51-20
 
Mynd og umfjöllun/ [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -