spot_img
HomeBikarkeppniKeflavík í úrslit VÍS bikarkeppninnar eftir öruggan sigur gegn Njarðvík

Keflavík í úrslit VÍS bikarkeppninnar eftir öruggan sigur gegn Njarðvík

Keflavík lagði Njarðvík í kvöld í fyrri undanúrslitaleik VÍS bikarkeppni kvenna. Keflavík mun því leika til úrslita nú á laugardag gegn siguvegara hinnar undanúrslitaviðureignarinnar, Grindavík eða Þór Akureyri.

Fyrir leik

Keflavík hafði fyrir nokkrum umferðum tryggt sér deildarmeistaratitil Subway deildarinnar þetta tímabilið. Njarðvík aftur á móti verið í harðri baráttu um 2. sætið við Grindavík. Leikir Keflavíkur og Njarðvíkur verið gífurlega spennandi á tímabilinu að undanskildum einum þó svo að Keflavík hafi unnið alla þrjá, nú síðast í lok febrúar með minnsta mun mögulegum, 75-74.

Gangur leiks

Eftir nokkuð fjörugar upphafsmínútur nær Keflavík aðeins að slíta sig frá í seinni hluta fyrsta fjórðungs. Mikið til er það sterkum varnarleik þeirra að þakka, en þrátt fyrir að Selena Lott hafi komist vel af stað sóknarlega með 10 stig í fjórðungnum fyrir Njarðvík, ná hinar ekki að fylgja á eftir. Á lokasekúndum leikhlutans á Anna Ingunn Svansdóttir góða innkomu fyrir Keflavík, setur tvo þrista og Keflavík leiðir með 10 stigum að honum loknum, 24-14. Njarðvík gerir ágætlega að hanga í þeim í öðrum leikhlutanum, áhlaup þeirra eru þó of stutt til að þær nái almennilega að komast nálægt þar sem Keflavík svarar alltaf. Sóknarlega gengur þó betur hjá fleiri leikmönnum Njarðvíkur en í upphafi leiks og er munurinn 15 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 51-36.

Stigahæstar fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum voru Birna Valgerður Benónýsdóttir og Sara Rún Hinriksdóttir með 11 stig hvor og þá var Selena Lott komin með 19 stig fyrir Njarðvík.

Það er meiri kraftur í Njarðvík í upphafi seinni hálfleiksins og ná þær á upphafsmínútum þess þriðja að koma forskoti Keflavíkur aftur niður fyrir 10 stigin. Allt bit virðist þó fara úr þeim undir lok fjórðungsins og gengur Keflavík á lagið og setur forystu sína í 19 stig fyrir lokaleikhlutann, 71-52. Í fjórða leikhlutanum tekst Njarðvík ekki að koma með áhlaup sem kemur þeim aftur inn í leikinn. Eins og á löngum köflum fyrr í leiknum voru þær að skjóta boltanum illa frá öllum mögulegum stöðum vallarins. Niðurstaðan að lokum var gífurlega öruggur, og að er virtist nokkuð þægilegur sigur Keflavíkur, 86-72.

Atkvæðamestar

Best í liði Keflavíkur í kvöld var Daniela Wallen með 17 stig, 15 fráköst og 9 stoðsendingar. Fyrir Njarðvík var það Selena Lott sem dró vagninn með 29 stigum og 11 fráköstum.

Hvað svo?

Keflavík hafa tryggt sig í bikarúrslitaleikinn komandi laugardag 23. mars, en þar munu þær mæta sigurvegara viðureignar Grindavíkur og Þórs Akureyri sem fram fer seinna í kvöld.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Viðtöl upphaflega birt á vef Víkurfrétta

Fréttir
- Auglýsing -