spot_img
HomeFréttirKeflavík í úrslit með öruggum 3-1 sigri gegn Íslandsmeisturum Njarðvíkur

Keflavík í úrslit með öruggum 3-1 sigri gegn Íslandsmeisturum Njarðvíkur

Keflavík er komið í úrslit Subwaydeildar kvenna eftir öruggan 3-1 sigur á Njarðvík í undanúrslitum keppninnar. Fjórða viðureign liðanna fór fram í Ljónagryfjunni í kvöld þar sem Keflvíkingar sýndu yfirburði sína, lokatölur 44-79.

Hvort það verði Haukar eða Valur sem mæta Keflavík í úrslitum skýrist von bráðar en Njarðvíkingar eru komnir í sumarfrí. Það reyndist Njarðvíkingum þungt að missa leikmann á borð við Aliyah Collier í meiðsli enda einn allra besti leikmaður deildarinnar.

Njarðvíkingar voru sprækir í upphafi leiks og gerðu fyrstu stigin en Keflvíkingar voru fljótir að ná sér og í stöðunni 8-16 tók Rúnar Ingi leikhlé fyrir heimakonur. Það voru þó gestirnir í Keflavík sem leiddu eftir fyrstu tíu mínúturnar 16-25. Daniela Wallen með 11 stig fyrir Keflavík en Isabella Ósk 6 í liði Njarðvíkinga.

Í öðrum leikhluta tókst Njarðvík að mestu að halda sér í armslengd frá Keflavík. Staðan 24-36 þegar fjórar mínútur voru til hálfleiks en þá settu gestirnir í fluggír og lokuðu fyrri hálfleik með 4-14 áhlaupi og leiddu því 28-50 í hálfleik.

Wallen komin með 15 í liði Keflavíkur sem hélt Njarðvík í aðeins 12 stigum í öðrum leikhluta. Isabella Ósk var áfram stigahæst í liði Njarðvíkinga með 10 stig.

Njarðvíkingum tókst að bæta varnarleik sinn í þriðja leikhluta en Keflvíkingar gáfu ekkert eftir, leiddu 36-64 að loknum þriðja leikhluta og unnu leikinn 44-79 eins og áður greinir. Öflugur sigur Keflvíkinga sem koma einkar líklegir inn í úrslitaseríuna.

Daniela Wallen var með tvennu í kvöld, 19 stig og 15 fráköst og Karina Denislavova bætti við 13 stigum og 6 stoðsendingum. Hjá Njarðvík var Isabella Ósk Sigurðardóttir með tvennu, 14 stig og 14 fráköst.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -