spot_img
HomeFréttirKeflavík í Höllina - Góð barátta Ísfirðinga dugði ekki til

Keflavík í Höllina – Góð barátta Ísfirðinga dugði ekki til

Keflavík er komið í úrslit Poweradebikarkeppninnar í karlaflokki og leikur til úrslita gegn Tindastól þann 18. febrúar næstkomandi en Keflvíkingar lögðu KFÍ í undanúrslitum í kvöld, 90-77. Ísfirðingar sem leika í 1. deild börðust af miklum krafti í Toyota-höllinni og hafa oft farið verr út úr glímum við Keflvíkinga en þeir gerðu í kvöld. Í raun sýndi KFÍ að þeir ætli sér að mæta með læti í úrvalsdeildina á næstu leiktíð enda virðist fátt geta komið í veg fyrir það þó bikargöngu þeirra sé nú lokið. Keflavík reyndist einfaldlega númeri of stórt að þessu sinni.
Ísfirðingar gerðu fyrstu stig leiksins af vítalínunni og voru hvergi bangnir að þeim loknum og pressuðu á heimamenn. Djarft að mæta úr 1. deildinni með pressu til Keflavíkur en gestirnir létu engan bilbug á sér finna.
 
KFÍ skaut mikið fyrir utan í upphafi leiks og þristarnir vildu ekki niður. Valur Orri Valsson klöngraði niður einum þrist fyrir Keflavík sem komust í 9-8. Ísfirðingar létu ekkert stinga sig af í fyrsta leikhluta en þeir áttu þó í vandræðum með Magnús Þór Gunnarsson. Fyrsti KFÍ þristurinn vildi niður þegar rúm mínúta var eftir af fyrsta leikhluta og þar var Kristján Andrésson að verki og minnkaði muninn í 20-17 en Keflavík leiddi 24-19 að loknum fyrsta leikhluta.
 
Edin Suljic kom snemma inn í lið KFÍ af bekknum en fékk þrjár villur í fyrsta leikhluta en gerði þar sex stig og færði gestunum mikinn kraft í sinn leik og splæsti m.a. í rándýra troðslu eftir ,,alley-up" sendingu frá Craig Schoen.
 
Magnús Þór kom Keflavík í 31-21 með þriggja stiga körfu í upphafi annars leikhluta og Keflvíkingar hertu róðurinn því þeir komust fljótt í 41-24 þar sem Jarryd Cole var einráður í teignum. Gestirnir úr 1. deild gerðust sekir um dýr mistök eins og að stíga ekki út og Keflvíkingar fóru því af krafti í sóknarfráköstin. Halldór Örn Halldórsson og Almar Guðbrandsson áttu fínar rispur í lok fyrri hálfleiks hjá Keflavík og það var Almar sem lokaði fyrri hálfleik með körfu í teignum og Keflavík leiddi 49-35 í leikhléi.
 
Magnús Þór Gunnarsson var með 13 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar hjá Keflavík í hálfleik en hjá KFÍ var Kristján Andrésson með 10 stig og 3 fráköst.
 
KFÍ lét fyrir sér finna strax í upphafi síðari hálfleiks, Chris Miller-Williams fékk þá tvisvar í röð villu og vítaskot að auki og KFÍ minnkaði muninn í 53-45 og Keflavík tók leikhlé eftir 8-0 áhlaup KFÍ og 5.50mín eftir af þriðja leiklhuta. Heimamenn í Keflavík komu út úr leikhléinu með sitt eigið 8-0 áhlaup en Ísfirðingar ætluðu ekki að missa heimamenn of langt frá sér og staðan 71-57 að loknum þriðja leikhluta sem fór því 22-22.
 
Ari Gylfason átti góða spretti í liði KFÍ og og skoraði fyrstu stig gestanna í fjórða leikhluta og minnkaði muninn í 71-60 eftir rúmlega tveggja mínútna leik. Keflvíkingar voru fastir fyrir í vörninni og Ísfirðingar þurftu oft að sætta sig við erfið skot utan af velli og fengu Keflavíkurhraðlestina þá oft í bakið og gáfu nokkrar auðveldar körfur. Svona gekk þetta út fjórða leikhluta, gestirnir sýndu fína tilburði en Keflavík gerði vel að halda þeim fjarri.
 
Pétur Sigurðsson fékk reisupassann undir lok leiksins eftir samskipti sín við dómara kvöldsins. Þeir Ísfirðingar sem mættir voru í Toyota-höllina klöppuðu þó vel fyrir sínum manni um leið og hann yfirgaf leikvöllinn.
 
Keflavík hafði að lokum öruggan 90-77 sigur þar sem Magnús Þór Gunnarsson og Jarryd Cole fóru fremstir í flokki. Keflavík er því komið í bikarúrslit og mætir þar Tindastól sem lagði KR að velli. Ísfirðingum til hróss í kvöld þá börðust þeir vel og létu ekki stinga sig af og sýndu að þeir eiga erindi í úrvalsdeildina en fátt bendir til annars en þeir vinni öruggan sigur í 1. deild þetta tímabilið.
 
 
Heildarskor:
 
Keflavík: Magnús Þór Gunnarsson 25/6 fráköst, Charles Michael Parker 20/6 fráköst, Jarryd Cole 14/17 fráköst, Valur Orri Valsson 13/4 fráköst/8 stoðsendingar, Halldór Örn Halldórsson 10, Kristoffer Douse 3, Gunnar H. Stefánsson 3, Almar Stefán Guðbrandsson 2, Ragnar Gerald Albertsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Andri Daníelsson 0, Guðmundur Auðunn Gunnarsson 0.
 
KFÍ: Christopher Miller-Williams 24/11 fráköst, Ari Gylfason 13/5 fráköst, Edin Suljic 12/6 fráköst, Kristján Andrésson 10/5 fráköst, Craig Schoen 9/6 fráköst/6 stoðsendingar, Jón H. Baldvinsson 7/7 fráköst, Hlynur Hreinsson 2, Guðni Páll Guðnason 0, Leó Sigurðsson 0, Sævar Vignisson 0.
 
Umfjöllun/ [email protected]
Fréttir
- Auglýsing -