spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKeflavík hafði betur í spennandi bæjarglímu 

Keflavík hafði betur í spennandi bæjarglímu 

Keflavík og Njarðvík buðu upp á enn einn spennuslaginn líkt og þau hafa verið þekkt fyrir síðustu fjóra áratugi. Að þessu sinni voru það Keflvíkingar sem mörðu sigur á Sunnubrautinni í spennuslag. Lokatölur 93-83 þar sem Mikla fór á kostum í Njarðvíkurliðinu en Moller var að sama skapi frábær Keflavíkurmegin. 

Keflvíkingar byrjuðu 6-0 og á sama tíma voru gestirnir úr Njarðvík 0-5 í þristum og skoruðu ekki fyrstu fjórar mínútur leiksins. Lautier lokaði svo eyðimerkurgöngu gestanna með körfu og villu að auki og Njarðvíkingar mættir á blað 6-3. 

Brandon hvarf snemma frá í fyrsta leikhluta í liði Njarðvíkinga og virtist vera að glíma við einhver ökklameiðsli og kom ekki meira við sögu í leiknum. 

Ólafur Björn Gunnlaugsson setti fyrsta þrist leiksins og það í þrettándu tilraun liðanna! Þar minnkaði hann muninn í 13-14 og Keflvíkingar leiddu svo 15-14 eftir fyrsta. Lítið skorað og skotnýtingin döpur beggja megin en bæði lið að leika sterka vörn. 

Það tók Njarðvíkinga 14 mínútur að finna fyrsta þristinn sinn í leiknum, tíunda tilraun grænna og Milka á ferðinni að minnka muninn í 25-23. Milka með 11 af fyrstu 23 stigum Njarðvíkinga og að spila vel. 

Mirza Bulic jafnaði metin fyrir Keflavík 30-30 með liðlega fjórar mínútur til hálfleiks en Mirza var beittastur sóknarlega Keflavíkurmegin í fyrri. Milka svaraði þessu með fimm stigum í röð og grænir komnir yfir 30-35 og leiddu svo 42-44 í hálfleik eftir að Craig Moller setti flautuþrist fyrir Keflavík. Heimamenn heppnir að sleppa með þennan þrist þar sem Mirza braut á Snjólfi í teigbaráttunni á sama tíma og skotið reið af. 

Milka bestur manna á vellinum í fyrri hálfleik með tvennu takk fyrir 21 stig og 11 fráköst en Moller með 12 og Mirza 11 í liði Keflavíkur. Liðin öllu ferskari á alla kanta í öðrum leikhluta heldur en þeim fyrsta. 

Heimamenn í Keflavík mættu með þrjá þrista snemma inn í þriðja leikhluta og náðu forystunni 51-49. Brynjar Kári jafnaði metin fyrir Njarðvík 54-54 þegar rúmar tvær voru eftir af þriðja leikhluta en hann lék talsvert meira í kvöld en venjulega í fjarveru Brandon. 

Lautier fékk sína fjórðu villu í þriðja leikhluta og Keflavíkurmegin var Egor að eiga virkilega flottan leikhluta, kominn með 17 stig og Keflavík leiddi 63-61 eftir þriðja. 

Milka fékk sína fjórðu villu í upphafi fjórða leikhluta og villuvandræði græanna orðin enn brattari en áður. Morsell steig vel upp í fjórða og kom Keflavík í 72-68 með villu og körfu að auki þegar rúmar sex mínútur voru til leiksloka. 

Moller kom Keflavík í 75-69 með stórum þrist þegar fim mínútur lifðu leiks, Moller að gera mjög vel í kvöld. Snöggtum síðar var Moller aftur á ferðinni með annan þrist og kom Keflavík í 83-74. Njarðvíkingar gerðu heiðarlega tilraun til að jafna leikinn á nýjan leik en þetta var forysta sem Keflvíkingar vildu ekki láta af hendi og þegar mínúta lfiði leiks lauk Moller góðu dagsverki með þrist og kom Keflvíkingum í 89-81.  Lokatölur reyndust svo 93-83 eins og áður greinir. 

Moller með 24 stig og 12 fráköst hjá Keflavík, Morsell var með 20 stig, 12 fráköst og 7 stoðsendingar og þá var Koulechov með 19 stig. Milka var einn besti maður vallarins í kvöld með 29 stig og 19 fráköst, Lautier bætti við 19 stigum, 7 fráköstum og 5 stoðsendingum og þá var Brynjar Kári með 11 stig af Njarðvíkurbekknum. 

Tölfræði leiks

Myndasafn (Gunnar Jónatansson)

Fréttir
- Auglýsing -