spot_img
HomeFréttirKeflavík fer taplaust inn í landsleikjahléið - Unnu 17 stiga sigur í...

Keflavík fer taplaust inn í landsleikjahléið – Unnu 17 stiga sigur í Vesturbænum

Keflavík lagði KR í kvöld í Dominos deild kvenna með 17 stigum, 87-104. Keflavík eftir leikinn eitt liða á toppi deildarinnar með sex sigurleiki og ekkert tap á meðan að KR er á borninum, enn á sigur eftir sjö leiki.

Gangur leiks

Heimakonur í KR byrjuðu leik kvöldsins mun betur, ná mest 11 stiga forystu á upphafsmínútunum. Gestirnir úr Keflavík eru þó fljótar að ranka við sér og vinna forskotið niður, en heimakonur bæta þá aftur í og eru 7 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 26-19. Með mikilli harðneskju nær Keflavík aftur að vinna niður forystu KR undir lok fyrri hálfleiksins og byggja upp sína eigin. Keflavík 9 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 44-53.

Í upphafi seinni hálfleiksins gerir Keflavík vel í að ekki aðeins halda í, heldur bæta aðeins við forystu sína. Eru 12 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 72-84. Heimakonur gera svo nokkuð gott áhlaup í fjórða leikhlutanum, þar sem að munurinn fer minnst niður í 4 stig, en allt kemur fyrir ekki. Keflavík sigrar að lokum með 17 stigum, 87-104

Tölfræði lýgur ekki

Keflavík skoraði 45 stig úr þriggja stiga skotum í kvöld á móti aðeins 15 hjá KR. Þá var nýting þeirra í þessum skotum einnig mun betri, Keflavík 35% og KR 21% úr djúpinu.

Kjarninn

Það að þetta hafi verið leikur á milli liðsins í efsta sæti og því sem er í neðsta sæti undirstrikar hversu stutt er á milli í þessari deild. Getur alveg sagst það hafi verið einhver munur á liðunum í kvöld, en ekki þannig að annað þeirra sé taplaust og að hitt hafi ekki unnið leik það sem af er tímabili. Þetta KR lið er, þrátt fyrir töpin, á uppleið og þær munu vinna einhverja leiki í vetur. Að sama skapi er hægt að hrósa liði Keflavíkur, sem virðast ætla að fara fram úr nokkuð hófsömum væntingum þennan veturinn.

Atkvæðamestar

Daniela Morillo var atkvæðamest í liði Keflavíkur í kvöld. Skilaði þrefaldri tvennu, 27 stigum, 16 fráköstum og 10 stoðsendingum. Fyrir heimakonur í KR var það Annika Holopainen sem dróg vagninn með 34 stigum, 13 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Hvað svo?

Nú er komið að landsleikjahléi í Dominos deild kvenna, en bæði lið eiga næsta leik í deildinni þann 17. febrúar. Keflavík heimsækir Snæfell í Stykkishólmi á meðan að KR mætir Skallagrím í Borgarnesi.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -