spot_img
HomeFréttirKeflavík einum sigurleik frá úrslitum eftir sigur í Blue höllinni

Keflavík einum sigurleik frá úrslitum eftir sigur í Blue höllinni

Keflavík tók aftur forystu í einvígi sínu gegn Stjörnunni í undanúrslitum Subway deildar kvenna í kvöld, 87-78. Keflavík því komnar með 2-1 forskot, en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sig áfram í úrslitin.

Keflavík hafði unnið fyrsta leik liðanna nokkuð örugglega á heimavelli í Blue höllinni áður en Stjarnan jafnaði metin á sínum heimavelli í leik tvö í Umhyggjuhöllinni.

Leikur kvöldsins var nokkuð jafn í upphafi og munaði aðeins 2 stigum á liðunum eftir fyrsta leikhluta, 16-14. Heimakonur í Keflavík eru svo skrefinu á undan vel inní annan leikhlutann, en þökk sé góðu áhlaupi nær Stjarnan að snúa taflinu við áður en liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 31-35.

Með herkjum nær Stjarnan svo að halda í fenginn hlut í upphafi seinni hálfleiksins og leiða þær allan þriðja leikhlutann. Forskotið er þó ekki mikið og er staðan 57-58 fyrir lokaleikhlutann. Í þeim fjórða nær Keflavík aftur góðum tökum á leiknum og sigla þær að lokum nokkuð öruggum 9 stiga sigur í höfn, 87-78.

Atkvæðamestar fyrir Keflavík í kvöld voru Daniela Wallen með 15 stig, 10 fráköst, 7 stoðsendingar og Anna Ingunn Svansdóttir með 17 stig og 4 fráköst.

Fyrir Stjörnuna var það Denia Davis-Stewart sem dró vagninn með 30 stigum og 23 fráköstum. Henni næst var Katarzyna Trzeciak með 22 stig og 3 fráköst.

Eftir sigur kvöldsins eygir Keflavík þess von að tryggja sig í úrslitin með sigri í næsta leik, en hann fer fram komandi fimmtudag 9. maí í Umhyggjuhöllinni.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -