Keflvíkingar eru deildarmeistarar í Domino´s deild kvenna eftir spennusigur gegn Snæfell í Toyota-höllinni í kvöld. Lokatölur voru 71-64 Keflavík í vil en það voru þær Pálína María Gunnlaugsdóttir og Birna Valgarðsdóttir sem veittu deildarmeistaratitlinum viðtöku í kvöld. Óhætt er að segja að Keflavík hafi lagt grunninn snemma að þessum titli eftir magnaða byrjun á tímabilinu en liðið á enn eftir fjóra leiki í deild áður en deildarkeppninni lýkur!
Hólmarar léku án Öldu Leifs Jónsdóttur í kvöld vegna meiðsla en það aftraði þeim ekki í því að hefja leikinn 15-23 og þannig stóðu leikar að loknum fyrsta leikhluta.
Keflvíkingar réttu hlut sinn í öðrum leikhluta og unnu hann 19-16 en Hólmarar leiddu því 34-39 í leikhléi. Í síðari hálfleik mættu Keflvíkingar grimmir á völlinn, unnu þriðja leikhluta 17-9 og þegar allt var komið í járn setti Ingunn Embla Kristínardóttir niður risavaxinn þrist en Hólmarar bitu frá sér á nýjan leik. Ingunn breytti stöðunni í 65-60 með þristinum en Hólmarar voru eldsnöggir að minnka muninn aftur í 65-64. Lengra komust þeir ekki og Keflvíkingar kláruðu leikinn á vítalínunni en þaðan komu sex síðustu stig þeirra.
Jessica Jenkins var stigahæst hjá Keflavík í kvöld með 21 stig og 4 fráköst og þær Pálína Gunnlaugsdóttir og Ingunn Embla Kristínardóttir bættu báðar við 12 stigum. Hjá Snæfell var Hildur Sigurðardóttir með 23 stig og 7 fráköst og Kieraah Marlow gerði 16 stig og tók 9 fráköst.
Keflavík er því deildarmeistari eftir að hafa leitt deildina allt mótið og ljóst að þær verða með heimaleikjaréttinn alla úrslitakeppnina svo fremi sem þær eru á lífi í þeirri keppni. KR minnkaði mun Snæfells niður í fjögur stig í kvöld og geta enn náð 2. sæti af Hólmurum.
Staðan í deildinni
| Deildarkeppni | |||
| Nr. | Lið | U/T | Stig |
|---|---|---|---|
| 1. | Keflavík | 21/3 | 42 |
| 2. | Snæfell | 19/7 | 38 |
| 3. | KR | 17/8 | 34 |
| 4. | Valur | 14/12 | 28 |
| 5. | Haukar | 12/14 | 24 |
| 6. | Njarðvík | 8/17 | 16 |
| 7. | Grindavík | 7/19 | 14 |
| 8. | Fjölnir | 4/22 | 8 |



