spot_img
HomeFréttirKeflavík deildarmeistari í Subway-deild kvenna

Keflavík deildarmeistari í Subway-deild kvenna

Keflavík er deildarmeistari í Subway-deild kvenna eftir æsispennandi 74-75 sigur á Njarðvík í Ljónagryfjunni. Keflavík á enn fjóra leiki eftir í A-hluta deildarinnar en hafa engu að síður tryggt sér efsta sætið. Daniela Wallen innsiglaði sigur Keflavíkur af vítalínunni þegar 0,8 sekúndur lifðu leiks.

Byrjunarlið kvöldsins:

Njarðvík:
Jana Falsdóttir
Krista Gló Magnúsdóttir
Selena Lott
Ena Viso
Emilie Hesseldal

Keflavík:
Elisa Pinzan
Sara Rún Hinriksdóttir
Thelma Dís Ágústsdóttir
Daniela Wallen
Birna Valgerður Benónýsdóttir

Leikurinn fór fremur rólega af stað. Njarðvík leiddi 6-2 eftir fyrstu fjórar mínútur leiksins. Sara Rún minnkaði muninn fyrir Keflavík í 12-6. Ísabella Ósk Sigurðardóttir kom inn í fyrsta leikhluta í Njarðvíkurliðinu en þetta var hennar fyrsti leikur fyrir Njarðvík á tímabilinu eftir endurkomu í íslensku deildina frá atvinnumennskunni. Njarðvík leiddi svo 20-13 eftir fyrsta hluta þar sem Selena Lott var með 10 stig hjá Njarðvík en Sara Rún 6 í liði gestanna.

Þristarnir duttu ekki í þeim fyrsta en í öðrum leikhluta fóru þeir að lenda og Hulda María Agnarsdóttir kom Njarðvík í 26-17 með einum slíkum. Keflavík svaraði með tveimur í röð og staðan 26-23 og ljóst að þristaþurrkurinn var á enda. Keflavík náði í fyrsta sinn forystu í stöðunni 26-27 og þá voru liðlega fjórar mínútur til hálfleiks. Njarðvík endurheimti forystuna og leiddu 35-33 í hálfleik þar sem Lott var með 17 stig í leikhléi hjá heimakonum en Sara Rún 8 í liði gestanna. Heimakonur í Njarðvík voru allt annað en sáttar í lok fyrri hálfleiks en um leið og fyrri hálfleikur var að renna í sandinn hleypti Hulda María af þrist þar sem augljóslega var brotið á henni og hefði hún með réttu átt að fá þrjú skot en var hlunnfarin þeim fríðindum.

Keflavík opnaði síðari hálfleik með þrist og komust í 35-36 en snöggtum síðar fékk Wallen sína þriðju villu hjá gestunum fyrir brot á Hesseldal. Það kom þó ekki í veg fyrir 10-0 byrjun Keflavíkur á síðari hálfleik og eftir þrjár mínútur var staðan 35-43 Keflavík í vil og Rúnar Ingi tók leikhlé fyrir Njarðvíkinga. Þegar fimm mínútur voru eftir af þriðja leikhluta fékk Wallen svo sína fjórðu villu en hún fór ekki á bekkinn eftir að hafa fengið sína þriðju. 15 mínútur eftir af leiknum og Wallen eini leikmaður vallarins í merkjanlegum villuvandræðum. Keflvíkingar létu það ekki á sig fá og Birna Valgerður splæsti í þrist sem kom Keflavík í 39-48. Jana Falsdóttir færði Njarðvík nærri með tveimur þristum í röð og minnkaði muninn í 49-54 með rúmar tvær mínútur eftir af þriðja. Sara Rún gerði svo vel til að loka þriðja og kóróna sterkan leikhluta fyrir Keflavík er hún saumaði sig í gegnum Njarðvíkurvörnina og skoraði og kom Keflavík í 51-58 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Öflugur leikhluti gestanna sem þær unnu 16-25.

Leikar æstust strax í upphafi fjórða leikhluta þar sem Birna Valgerður fékk sína fjórðu villu er dómarar leiksins gáfu henni T-villu fyrir mótmæli. Strax í kjölsogið mætti Jana Falsdóttir með þrist og kom Njarðvík í 59-58. Þegar fimm mínútur voru til leiksloka var staðan jöfn 63-63. Þegar rúmar tvær lifðu leiks kom Thelma Dís með stóran þrist fyrir Keflavík og kom gestunum í 64-70. Njarðvíkingar svöruðu fljótt og minnkuðu muninn í 68-70 og ein og hálf mínúta til leiksloka. Elisa kom með risa þrist fyrir Keflavík þegar mínúta var eftir og kom gestunum í 68-73. Aftur kom Njarðvík með fjögurra stiga dembu og minnkaði muninn í 72-73 og brutu svo á Keflavík með 22 sekúndur eftir af leiknum og Elisa á línunni brenndi af fyrra skotinu en setti það síðara og kom Keflavík í 72-74 og Njarðvíkingar tóku leikhlé. Næsta Njarðvikursókn fór í gegnum Selenu Lott sem jafnaði leikinn 74-74 þegar 5 sekúndur lifðu leiks. Keflvíkingar með leikhlé og komu boltanum síðan á Wallen og brotið á henni með 0,8 sek eftir af leiknum en Wallen setti bara annað vítið 74-75. Njarðvíkingar áttu ekki leikhlé til að gefa og tíminn of naumur til að koma af skoti og Keflavík fagnaði því sigri og um leið deildarmeistaratitli. Mögnuð rimma toppliðanna og ljóst að þetta er heldur betur flugvélaeldsneyti á bikarrimmu liðanna í mars.

Selena Lott var stigahæst í Njarðvíkurliðinu í kvöld með 26 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar en hjá Keflavík Sara Rún Hinriksdóttir með 16 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -