spot_img
HomeFréttirKeflavík bikarmeistari í unglingaflokki kvenna

Keflavík bikarmeistari í unglingaflokki kvenna

Keflavík er bikarmeistari í unglingaflokki kvenna eftir öruggan sigur á Haukum í Laugardalshöll. Haukar bitu frá sér í fyrsta leikhluta en eftir það brettu Keflvíkingar upp ermar og settu saman stórsigur. Lokatölur 57-87 Keflavík í vil þar sem Sara Rún Hinriksdóttir var útnefnd Lykil-maður leiksins með 22 stig, 10 fráköst og 3 stoðsendingar. Haukar léku án Sylvíu Rúnar Hálfdanardóttur sem er fingurbrotin og munaði um minna að þessu sinni.
 
 
Í upphafi leiks átti Sara Rún Hinriksdóttir erindi inn í klefa af einhverjum ástæðum og hélt sína leið og inn kom Marín Laufey Davíðsdóttir og setti fljótt niður fimm stig fyrir Keflavík. Þóra Kristín var beittust Haukakvenna í fyrsta leikhluta en Keflvíkingar leiddu engu að síður 16-18 að honum loknum.
 
Róðurinn í Keflavíkurvörninni var hertur og Haukar máttu hafa afar mikið fyrir hverju stigi sem þær skoruðu í öðrum leikhluta. Sara Rún fór að láta vel að sér kveða og Sólrún Inga sömuleiðis í liði Hauka. Keflvíkingar virtust samt engu að síður bara enn í þriðja gír, fumlaust og engin gríðarleg átök við það að fara inn í hálfleik með 17 stiga forystu, 28-45.
 
Sara Rún Hinriksdóttir var með 15 stig og 7 fráköst í liði Keflavíkur í hálfleik en Sólrún Inga Gísladóttir var með 10 stig og 4 fráköst í Haukaliðinu.
 
Í fyrri hálfleik lagði Keflavík fínan grunn að sigrinum í dag en þær hættu ekki heldur léku stífa vörn á Hauka í þriðja hluta og héldu Hafnfirðingum í aðeins 11 stigum og leiddu 39-66 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og sigurinn svo gott sem í höfn.
 
Fjórði leikhluti varð aldrei spennandi, munurinn á liðunum var einfaldlega of mikill þar sem Keflavík var í raun að tefla fram meistaraflokki félagsins utan erlends atvinnumanns, Birnu Valgarðsdóttur og Bryndísar Guðmundsdóttur. Gríðarlega öflug sveit Keflvíkinga í unglingaflokki sem hefur verið afar farsæl upp alla yngri flokkana. Lokatölur í Höllinni 57-87 eins og áður greinir.
 
 
Sara Rún Hinriksdóttir – Lykil-maður leiksins
 
  
 
Myndir/ Bára Dröfn
Fréttir
- Auglýsing -