spot_img
HomeFréttirKeflavík bikarmeistari í stúknaflokki

Keflavík bikarmeistari í stúknaflokki

Keflvíkingar eru bikarmeistarar í stúlknaflokki eftir öruggan 70-44 sigur á grönnum sínum úr Njarðvík. Keflvíkingar tóku forystuna snemma leiks og létu hana aldrei af hendi. Thelma Dís Ágústsdóttir var valin Lykil-maður leiksins með bráðmyndarlega tvennu eða 22 stig og 19 fráköst en þá var hún einnig með 6 stoðsendingar og 2 stolna bolta.

Thelma Dís Ágústsdóttir fann sig vel í upphafi leiks og gerði 10 af fyrstu 16 stigum Keflavíkur í fyrsta leikhltua en að honum loknum leiddu Keflvíkingar 16-8. 

 

Keflvíkingar saumuðu enn frekar að grönnum sínum í öðrum leikhluta, unnu hann 15-6 og höfðu 31-14 forystu í hálfleik. Njarðvíkingar áttu í basli gegn sterkri vörn Keflavíkur og í leikhléi var Thelma Dís með 12 stig og 9 fráköst hjá Keflavík en Ása Böðvarsdóttir með 6 stig í liði Njarðvíkinga. 

 

Njarðvíkingar bitu frá sér í þriðja leikhluta og settu 16 stig á Keflavík en Keflvíkingar leiddu 51-30 fyrir lokaleikhlutann. Eftirleikurinn var aldrei spennandi þar sem öflugt lið Keflvíkinga átti ekki í nokkru basli með að sigla sigrinum í höfn. 

 

Eins og áður greinir var Thelma Dís Ágústsdóttir fyrirferðamikil með 22 stig, 19 fráköst, 6 stoðsendingar og 2 stolna bolta. Næst henni í liði Keflavíkur var Emelía Ósk Gunnarsdóttir með 15 stig og 9 fráköst. Hjá Njarðvíkingum var Svanhvít Ósk Snorradóttir með 15 stig og Hera Sóley Sölvadóttir bætti við 8 stigum og 18 fráköstum. 

 

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -