Keflavík er bikarmeistari í 9. flokki kvenna eftir 56-44 sigur á Breiðablik í bikarúrslitaleik liðanna í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Keflvíkingar höfðu frumkvæðið í leiknum en Blikar gerðu heiðarlega tilraun til þess að nálgast Keflavík á lokasprettinum en Keflvíkingar héldu fengnum hlut og fögnuðu Bikarmeistaratitlinum.
Blikar hófu leikinn í svæðisvörn og Hallveig Jónsdóttir gerði sex fyrstu stig Blikanna í leiknum en Keflvíkingar voru með frumkvæðið og komust í 9-6. Keflavíkurvörnin var þétt og áttu Blikar í vandræðum með að komast upp að körfunni. Sara Hinriksdóttir var aðeins of áköf í Keflavíkurvörninni í upphafi leiks og fékk snemma þrjár villur en Keflvíkingar leiddu 13-9 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Sandra Þrastardóttir var komin með 9 stig.

Keflvíkingar komu mun ákveðnari inn í annan leikhluta og komust fljótt í 21-11 þökk sé góðum varnarleik. Staðan í hálfleik var svo 25-12 Keflavík í vil. Sandra Þrastardóttir var með 13 stig hjá Keflavík í hálfleik en Hallveig Jónsdóttir með 6 stig hjá Blikum þar sem Keflvíkingar lokuðu vel á hana í öðrum leikhluta.
Elínora Einarsdóttir opnaði síðari hálfleikinn fyrir Keflavík með þriggja stiga körfu og staðan orðin 28-12 en Blikar dóu ekki ráðlausir þar sem Hallveig Jónsdóttir gerði næstu fjögur stigin fyrir Blika og stðan 28-16. Ingunn Kristínardóttir mætti líka með fjögurra stiga syrpu og breytti stöðunni í 34-18 fyrir Keflavík sem höfðu einnig talsverða yfirburði í frákastabaráttunni í þriðja leikhluta.
Keflvíkingar voru mun ákveðnari í þriðja leikhluta og að honum loknum var staðan 42-22 Keflavík í vil og ljóst að róðurinn yrði þungur ef Blikar ætluðu sér að ógna forystu Keflavíkur.
Breiðablik hóf fjórða leikhluta með látum og gerðu fyrstu 10 stig leikhlutans gegn 4 frá Keflavík og staðan 46-32 Keflavík í vil. Blikar börðust hetjulega en Keflvíkingar gerðu vel í að halda Kópavogsbúum fjarri og höfðu loks sigur 56-44.
Sandra Þrastardóttir var svo valin besti maður leiksins með 20 stig, 10 fráköst, 6 fiskaðar villur, 5 stolna bolta og 2 stoðsendingar. Þá var Ingunn Kristínardóttir líka með fínar rispur í Keflavíkurliðinu og gerði 10 stig og tók 12 fráköst.
Hjá Blikum var Hallveig Jónsdóttir með stórleik en hún gerði 18 stig, tók 14 fráköst, fiskaði 4 villur og stal 3 boltum.
Dómarar leiksins: Davíð Hreiðarsson og Jón Þór Eyþórsson.




