spot_img
HomeFréttirKeflavík bikarmeistari 10. flokks stúlkna

Keflavík bikarmeistari 10. flokks stúlkna

 

Keflavík sigraði Njarðvík í úrslitum 10. flokks stúlkna Maltbikarkeppninnar með 48 stigum gegn 40.

 

Fyrir leik

Liðin höfðu í tvígang spilað á móti hvoru öðru í vetur. Í bæði skiptin höfðu Njarðvíkurstúlkur farið með sigur af hólmi. Fyrri leikinn naumt, með 2 stigum á lokaskoti, en þann seinni nokkuð örugglega, 37-28.

 

Kjarninn

Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur í upphafi. Fyrstu 7 stig leiksins skorar Keflavík, þá tók Njarðvík við sér og skorar næstu 8 stig. Eina forysta Njarðvíkur í leiknum var á þessum tímapunkti, 7-8. Fyrsti leikhlutinn endaði svo í stigs forystu Keflavíkur 9-8. Í öðrum leikhlutanum er leikurinn svo jafn og spennandi þó að Keflavík hafi verið skrefinu á undan. Þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var forysta Keflavíkur 23-19.

 

Atkvæðamest fyrir Njarðvík í fyrri hálfleiknum var Alexandra Eva Sverrisdóttir með 9 stig og 4 fráköst, fyrir Keflavík var það Sigurbjörg Eiríksdóttir með 4 stig, 5 fráköst og 2 stoðsendingar.

 

Þáttaskil

Strax í byrjun seinni hálfleiksins var ljóst að Keflavík ætlaði ekki að gefa eftir þá forystu sem að þær höfðu. Bættu virkilega í báðumegin á vellinum, skora fyrstu 9 stig leikhlutans án þess að Njarðvík nái að koma nokkrum vörnum við og staðan þá komin í 33-19. Hlutinn endar 39-28. Í byrjun fjórða gerir Njarðvík svo aftur verðuga atrennu að forystu Keflavíkur, skora fyrstu 7 stigin í leikhlutanum, en þá er eins og þá hafi ekki verið innistæða fyrir meiru hjá þeim. Fór svo að lokum að Keflavík sigldi góðum 48-40 sigri í höfn.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Skotnýting Keflavíkur var mun betri í leiknum. Njarðvík tapar leiknum þrátt fyrir að ná að taka fleiri skot heldur en Keflavík. Nýting Keflavíkur 34% á móti aðeins 26% nýtingu Njarðvíkur.

 

 

Maður leiksins

Áðurnefnd Sigurbjörg Eiríksdóttir var frábær í liði Keflavíkur í dag. Skoraði 12 stig, tók 9 fráköst og gaf 4 stoðsendingar á þeim 29 mínútum sem hún spilaði í leiknum.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn #1

Myndasafn#2 

 

 

 

Umfjöllun / Davíð Eldur

Myndir, viðtöl / Ólafur Þór

Myndir / Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -