spot_img
HomeFréttirKeflavík aftur á sigurbraut - Þægilegur sigur á Fjölnismönnum

Keflavík aftur á sigurbraut – Þægilegur sigur á Fjölnismönnum

Keflavík vann góðan sigur á Fjölni í Blue höllinni í kvöld og komst þar með aftur á sigurbraut eftir tvo tapleiki í röð. Góð nýting fyrir aftan þriggja stiga línuna og mörg skemmtileg tilþrif voru á boðstólnum fyrir þá sem lögðu leið sína á völlinn í kvöld en óhætt er að segja að leikurinn hafi verið í höndum heimamanna frá fyrstu mínútu. Lokatölur 109-98.

Byrjunarlið Keflavíkur:

Ágúst Orrason – Deane Williams – Dominykas Milka – Hörður Vilhjálmsson – Khalil Ahmad

Byrjunarlið Fjölnis:

Róbert Sigurðsson – Tómas Heiðar Tómasson – Srdan Stojanovic – Jere Vicica – Victor Moses

Heimamenn byrjuðu betur og voru að skjóta vel þar sem Khalil Ahmad henti í þrjár djúpur í röð áður en Falur Harðarson tók leikhlé til að reyna að stilla varnarstrengi. Staðan 14-6 eftir fjögurra mínútna leik. Gestunum varð lítð ágengt að vinna niður muninn í leikhluta þar sem bæði lið töpuðu mörgum boltum en þristur frá Guðmundi Jónssyni og svar frá Srdan Stojanovic hélt muninum óbreyttum í 8 stigum að loknum fyrsta leikhuta.

Annar leikhluti byrjaði á 6-0 kafla Keflvíkinga. Þeir voru hreyfanlegir í vörninni og gerðu alla hluti erfiða en að sama skapi Fjölnismenn hálfsofandi í öllum sínum aðgerðum, gáfu opin skot og hleyptu inn miðjuna. Khalil Ahmad hélt áfram að salla niður þristunum og hinum megin var Jere Vucevic að draga vagninn. Tilþrifavélin Deane Williams bauð uppá alvöru miðopnu-plaggat þegar hann fór bakdyramegin niður endalínuna og tróð yfir Jere Vucica ásamt því að henda niður víti að auki en Williams hafði glatt augað fyrr í leikhlutanum með  vörslu uppi á háalofti er Victor Moses gerði sig líklegan til að troða yfir hann. Sókn gestanna varð ögn beittari er leið á leikhlutann eftir að Srdan og Moses fóru að finna sig betur og munurinn rokkaði í 7-10 stigum. Staðan eftir fyrri hálfleik 55-48.

Það voru greinileg skilaboð frá Fali Harðarsyni til sinna manna að vera aggressívari í vörninni því gestirnir fengu tvær óíþróttamannslegar villur á fyrstu 30 sekúndum síðari hálfleiks. Jere bauð Milka svo upp í sjeik þegar hann hafnaði beiðni hans um frítt sniðskot í hraðaupphlaupi með tilþrifum. Keflvíkingar voru þó með sóknarleg gæði til að finna svör og boltinn flaut vel á milli manna sem endaði með opnum þristum frá Khalil, Herði Axel og Ágústi Orrasyni. Bæði lið voru að skjóta boltanum mjög vel fyrir utan línuna fram að þessu og þónokkuð yfir 50% mörkunum. Keflavík náði muninum upp fyrir 20 stigin eftir huggulega hreyfingu frá Milka og staðan 79-58 þegar 3 mínútur voru eftir af 3. fjórðung. Hörður Axel var að leika vel á báðum endum vallarins og Keflavík leiddi með 18 stigum, 87-69, þegar 4. leikhluti hófst.

Gestirnir tóku góða rispu og minnkuðu muninn í 9 stig með framtaki frá Victor Moses sem var heimamönnum erfiður viðureignar og skoraði úr alls konar færum þótt stífdekkaður væri. Hann fékk þó litla hjálp og aftur þéttu heimamenn raðirnar, settu varðhundinn Guðmund Jónsson á vaktina og í kjölfarið fékk Keflavík mörg stig úr hraðaupphlaupum. Tvær troðslur frá Herði Axel og Dean Williams settu muninn svo upp í 16 stig þegar 4 mínútur lifðu leiks en vonin þá orðin afar veik. Heimamenn sigldu þessu örugglega heim og minni spámenn tóku að tínast inná síðustu mínúturnar. Lokatölur sem fyrr segir 109-98.

Af hverju vann Keflavík?

Keflvíkingar eru með meiri breidd og gæði í sínu liði og  þrátt fyrir að munurinn hafi ekki verið meiri en 11 stig þá var aldrei spurning hvoru meginn sigurinn myndi lenda. Bekkurinn hjá Keflavík skilar 20 stigum á móti 4 hjá Fjölni og leikmennirnir sem eru að koma inná með meiri vigt í öllum sínum aðgerðum. 19 tapaðir boltar hjá gestunum á að kosta eitthvað og það var rukkað fyrir það í dag.

Maður leiksins

Hörður Axel Vilhjálmsson (K) 42 framlagspunktar á tæpum 32 mínútum spiluðum. Steig upp í leik þar sem besti maður liðsins fram að þessu hafði sig hægan og keyrði þennan vagn heim í hlað. Frábær í vörn og sókn og sennilega geggjaður á bekknum líka þær rúmlega 8 mínútur sem hann sat þar. Skotnýtingin 9/11 og 6/8 í þriggja. 28 stig, 9 stoðsendingar, 5 fráköst og 3 stolnir boltar. Tók ekkert frá neinum og stjórnaði flæðinu af sömu fagmennsku og við erum að sjá heilt yfir frá honum í vetur. Nánast fullkominn leikur fyrir utan 1 tapaðan bolta en það er meira en fyrirgefið.

Aðrir góðir

Khalil Ahmad (K)  31 stig, 6/13 í þriggja, 5 stoðsendingar og 2 stolnir. Setti tóninn að þristaregninu sem gekk yfir í leiknum. Baneitraður í sókn en grútlinur í vörn .

Guðmundur Jónsson (K) 11 stig af bekknum, þungavigtar-varnarvinna og óeigingirni i sókn. Sjáanlegur munur á holningu liðsins þegar hann er inni á vellinum, mörg auðveld stig að koma eftir framlag frá honum sem ekki sést á tölfræðiblaðinu. Liðið er -3 þegar hann er inni á vellinum en það segir bara ekki alla söguna.

Victor Lee Moses (F) 29 stig, 4 fráköst, 2 stoðsendingar. Átti virkilega góðan seinni hálfleik og getur bæði skotið og farið á körfuna.

Jere Vucica (F) 22 stig, 10 fráköst, 4 stoðsendingar. Heilt yfir bestur hjá gestunum og gaman að fylgjast með baráttu hans og Dean Williams. 6 tapaðir boltar þurfa engar glósur.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Sigurður Friðrik Gunnarsson

Fréttir
- Auglýsing -