spot_img
HomeFréttirKatla Rún skaut Keflavík framhjá Haukum - Háspenna í framlengdum leik í...

Katla Rún skaut Keflavík framhjá Haukum – Háspenna í framlengdum leik í Blue höllinni

Keflavík og Haukar mættust suður með sjó í slag um 4. sætið í Domino´s deild kvenna í kvöld þar sem heimakonur mörðu 8 stiga sigur í framlengdum leik. Keflavík er nú 4 stigum á undan Haukunum og jafnar Skallagrím í 3.-4 sæti.

Byrjunarlið Keflavíkur:

Katla Garðarsdóttir, Emelía Ósk Gunnarsdóttir, Þóranna Kika Hodge-Carr, Daniela Wallen og Salbjörg Sævarsdóttir

Byrjunarlið Hauka:

Þóra Kristín Jónsdóttir, Lovísa Björt Henningsdóttir, Rósa Björk Pétursdóttir, Sigrún Björg Ólafsdóttir og Randi Brown

Gangur leiksins

Bæði lið buðu uppá hörkuvörn á fyrstu mínútum leiksins þar sem mest var skorað í gegnum hröð upphlaup eða erfið gegnumbrot. Það voru þó gestirnir sem náðu að halda meiri stöðugleika í þeim efnum og þótt Keflavík kæmist í 7-1 snéru Haukarnir taflinu við og leiddu 10-18 þegar 3 mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta. Þær héldu áfram að þjarma að heimakonum undir styrkri forystu Þóru Kristínar sem gerði 10 stig í fyrsta leikhluta auk þess að spila frábæra vörn á bakverði heimakvenna. Haukar lokuðu leikhutanum með 12 stiga forystu 11-23. Daniela Wallen var stigalaus í liði Keflavíkur á fyrstu 10 mínútunum og sóknarleikurinn yfir höfuð stirður.

Vandræðin í sóknarleik heimakvenna héldu áfram í öðrum fjórðung þar sem sterk Haukavörnin var nánast loftþétt á löngum köflum og þau skot sem fóru á Haukahringinn erfið og ætíð undir ströngu eftirliti. Haukarnir náðu þó ekki að nýta sér þann meðbyr á sóknarhelmingnum til að ná afgerandi forystu sem reyndist þeim dýrt þegar Keflavík komst á örlítið skrið og minnkaði muninn í 23-27 þegar 4 mínútur voru til hálfleiks. Randi Brown var að finna sig vel fyrir gestina og fyrir hennar tilstilli juku gestirnir muninn í 8 stig fyrir hálfeik, 28-36.

Keflvíkingar komu urrandi og bítandi út í síðari hálfleik og byrjuðu á 7-0 áhaupi áður en Haukarnir svöruðu fyrir sig. Boltinn fékk að fljóta betur sem skilaði sér í auknu framlagi frá fleiri leikmönnum, t.a.m. setti Katla Garðarsdóttir 2 þrista og Þóranna Kika lét að sér kveða eftir hljóðlátan fyrri hálfleik hjá þeim báðum. Keflavík komst svo yfir þegar 2 og hálf mínúta voru eftir af þriðja leikhluta og spennustigið hægt og rólega að vinda sig upp. Staðan 49 -47 fyrir síðasta leikhlutann.

Bæði lið hertu á varnarskrúfunum og lítið var um opin skot. Haukarnir voru að ná í dýrmæt sóknarfráköst trekk í trekk og það var eftir þrjú slík í einni sókn sem Randi Brown negldi niður þrist til að koma Haukunum í 4ra stiga forskot. Katla Rún Garðarsdóttir svaraði jafnóðum hinum megin á vellinum og munurinn 1 stig þegar 4 mínútur voru eftir, 54-55.

Það var lítið um áferðafallegan sóknarleik næstu mínútur og hnoð, moð og vítaskot það eina sem dugði til að ná í eitthvað fyrir sitt lið. Lovísa Björt Henningsdóttir kom Haukum einu stigi yfir þegar 1 mínúta var eftir eftir með góðri klárun í teignum eftir sendingu frá Þóru Kristíni. Haukar náðu að koma muninum í 3 stig af vítalínunni eftir nokkrar misheppnaðar sóknir Keflvíkinga en Katla Rún setti svo niður einn heimatilbúinn þrist uppúr engu þegar 8 sekúndur voru eftir til að jafna leikinn í 61-61. Senur í Blue höllinni. Randi Brown fékk tækifæri til að vinna leikinn með erfiðum þrist en skot hennar geigaði og framlengja þurfti leikinn.

Liðin voru orðin ansi þreytt sem sást best á því að mun auðveldara var fyrir bæði lið að sækja körfur í framlengingunni og gengu höggin á milli á æðisgengnum mínútum. Keflavík náði 5 stiga forskoti þegar 80 sekúndur voru eftir með sniðskoti Danielu Wallen og Haukarnir komnir upp að veggnum kalda en neituðu að gefast upp eftir allt erfiðið sem lagt hafði verið í leikinn. Þremur stigum munaði á liðunum þegar rúm hálf mínúta var eftir og Keflavík með boltann. Það var ljóðrænt þegar Katla Rún flengdi upp enn einum þristinum til að jarðsetja leikinn formlega við mikinn fögnuð stuðningsmanna þeirra. Lokatölur í Keflavík 78-70. 

Af hverju vann Keflavík?

Lausnir þurfa ekki alltaf að líta vel út. Keflavík virtist ekki líklegt til afreka í fyrri hálfleik. Þvert á móti voru vandræðin í sókninni algjör og náðu þær ekki að jafna framlagið sem Haukarnir settu í varnarleikinn hjá sér ofan á það. Haukakonur voru að að tví- og þrímenna á Danielu Wallen sem tókst sjaldan að finna opin samherja í þeim aðstæðum sem er eiginlega rannsóknarefni. Engin hreyfing án bolta og lítið flæði gerði þennan fyrri hálfleik hálf vandræðalegan fyrir heimakonur.

Það var svo áræðni, elja og trú sem fleytti Keflavík yfir þyngsta hjallann í síðari hálfleik og breytti mómentinu. Vörnin hélt þeim inni í leiknum og að lokum small sóknin rétt nægilega til að hnoða þessu í framlengingu þar sem liðið átti örlítið meira á tanknum en gestirnir. Þá hjálpaði einnig til að eiga 1 stykki Kötlu Rún Garðarsdóttur á ögurstundu þegar allar sóknaraðgerðir voru sem erfiðastar. Fyrirliðinn setti liðsfélaga sína á bakið, gekk yfir sjó og land eins og segir í kvæðinu góða og dró þessi 2 stig í hús.

Tölfræðimolinn

16 sóknarfráköst Hauka hefðu átt að skila liðinu meira. Fullt credit fyrir að berjast fyrir þeim öllum en Ólöf Helga getur ekki verið ánægð með að gjörsigra frákastabaráttuna svona án þess að fara heim með stigin tvö.

Hetjan

Katla Rún Garðarsdóttir. Fyrirliðinn með sinn besta leik fyrir meistaraflokk Keflavíkur hingað til. 22 stig, 6/7 í 3ja, 4 fráköst og 2 stolnir boltar. Sjálfstraustið í hæstu hæðum sem smitaði útfrá sér. Vel og innilega fagnað af liðsfélögum sínum þegar lokaflautið gall.

Aðrar góðar ..

Daniela Wallen. Dapur fyrri hálfleikur þar sem hún var að þröngva miklu upp en allt annað að sjá hana í síðari hálfleik. Spilaði 45 mínútur í kvöld og blés varla úr nös. 22 stig, 14 fráköst, 7 stoðsendingar og 4 stolnir.

Randi Brown. 26 stig, 6 fráköst, 4 stoðsendingar og 4 stolnir. Dró af henni er líða tók á leikinn, sérstaklega varnarlega.

Þóra Kristín Jónsdóttir. Landsliðsleikstjórnandinn var frábær í fyrri hálfleik og heilt yfir spilaði liðsfélaga sína uppi af fagmennsku. 11 tapaðir boltar eru samt alltof mikið fyrir jafn góðan bakkara og Þóru og hún veit það sjálf. 15 stig og 6 stoðsendingar auk þess að vera í botni í vörninni allan leikinn.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Sigurður Friðrik Gunnarsson

Fréttir
- Auglýsing -