spot_img
HomeFréttirKarlalið Snæfells 2009-2010

Karlalið Snæfells 2009-2010

Ingi Þór Steinþórsson söðlaði um í sumar og settist að í Stykkishólmi með fjölskyldu sína. Þar á bæ tók hann við sem þjálfari meistaraflokka karla og kvenna hjá Snæfell ásamt því að vera yfirþjálfari yngri flokka. Ingi Þór er kunnur fyrir afrek sín í Vesturbænum en þetta er í fyrsta sinn sem hann þjálfar annað lið en KR.
,,Það er óhætt að segja að sumarið hafi verið viðburðaríkt, ég skrifaði undir hjá Snæfell í maí, var svo með U 18 ára landsliðið á milljón. U 18 ára liðið keppti á EM í Bosníu og þegar við komum heim fluttum við fjölskyldan beint vestur svo sumarið var krefjandi,“ sagði Ingi en kvað móttökurnar vestra hafa verið frábærar.
 
,,Það er auðvelt að aðlagast í svona góðu umhverfi og ég og fjölskylda mín erum sátt við þetta og það gerir allt betra þegar maður þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af sínum nánustu,“ sagði Ingi sem hefur í mörg horn að líta í Fjárhúsinu.
 
,,Þetta er skemmtilegt, bæði karla- og kvennahóparnir hafa á þroskuðum einstaklingum að skipa og þó kvennaliðið sé ungt þá er engu að síður mikið í þær spunnið. Þarna eru stelpur sem eiga eftir að láta vel að sér kveða í framtíðinni,“ sagði Ingi og bætti við að karlaliðið í Hólminum hefði sterkan og góðan kjarna sem væri mikilvægt.
 
,,Tengslin í hópnum eru góð og svo fengum við Pál Fannar Helgason, Svein Davíðsson og Pálma Frey Sigurgeirsson ásamt Emil Þór Jóhannssyni og þeir hafa smellpassað inn í þetta og í raun er eins og þetta lið hafi verið saman í langan tíma. Menn voru virkilega samstilltir frá byrjun, á æfingum sem og utan þeirra. Það er ekki auðvelt fyrir unga menn að flytja út á land en mótttökurnar hjá þeim voru góður enda er vel hugsað um fólk hérna,“ sagði Ingi Þór sem hefur farið mikinn með Snæfell á undirbúningstímabilinu.
 
,,Ég er mjög ánægður með undirbúningsleikina okkar og við sýndum sjálfum okkur að við værum alveg samkeppnishæfir þótt við ættum enn langt í land. Við höfum mikið svigrúm til að bæta okkar leik. Við lékum 8 æfingarleiki og unnum 7 þeirra þar sem við töpuðum um daginn í Poweradebikarnum gegn þrælsterku Grindavíkurliði sem átti hörkuleik gegn okkur. Við vorum bara skrefinu á eftir þeim í leiknum,“ sagði Ingi en hvernig líst honum á breiddina í karlaliði Snæfells? Hefur hún ekki verið vandamál flest úrvalsdeildarárin í Hólminum?
 
,,Þetta er í fyrsta skipti held ég að Snæfell sé með 15 stráka á æfingum, drengjaflokkur æfir með meistaraflokki og það er mikið af ungum strákum hérna. Annars held ég að við séum með fleiri stráka en áður sem geta spilað. Við söknum engu að síður Atla Rafns Hreinssonar sem ákvað að taka sér tímabundið leyfi frá boltanum,“ sagði Ingi en Atli gerði 6,7 stig að meðaltali í leik með Snæfell á síðasta tímabili.
 
Snæfell vann Reykjanes Cup Invitational mótið á dögunum en féll út úr Poweradebikarnum í þessari viku gegn Grindavík. Þjálfarar annarra liða í deildinni hafa spáð Hólmurum nokkurri velgengni í vetur en hvernig líst Inga á komandi tímabil?
 
,,Mér líst mjög vel á deildina í vetur og liðin eiga eftir að rífa stig af hverju öðru og deildin verður t.d. jafnari í ár en í fyrra. Reyndar var deildin mjög jöfn í fyrra hjá liðum fyrir neðan Grindavík og KR sem báru af. Annars fer Grindavík langt í ár og Njarðvíkingar eru vel mannaðir sem og KR. Keflvíkingar eru smá spurningamerki í tengslum við erlenda leikmanninn sem þeir voru að fá og svo verða Stjarnan og Tindastóll seig í vetur og við ætlum okkur að vera þarna líka,“ sagði Ingi sem viðurkennir að eins og sakir standa þá verði Snæfell ekki á toppnum!
 
,,Ég sé okkur samt vera í baráttunni en ég held að við þurfum að bæta við okkur ígildi kana til að taka þátt í stóra dansinum. Menn eru samt raunhæfir og ég er bjartsýnn því menn eru tilbúnir til að leggja töluvert á sig fyrir hvorn annan og þannig erum við færir í flestan sjó.“
 
Fréttir
- Auglýsing -