15:50
{mosimage}
(Logi og félagar í landsliðinu stóðu sig vel í ár)
Körfuboltalandslið karla náði bestum árangri af öllum karla og kvennalandsliðum þriggja stærstu boltagreinanna á árinu sem er að líða. Þetta kemur fram á www.visir.is
Fréttablaðið hefur skoðað gengi þessara sex A-landsliða og þar kemur í ljós að karlalandsliðið í körfu var með 61,1 prósent hærra sigurhlutfall en kollegar þeirra í fótboltalandsliðinu sem unnu aðeins einn leik af níu á árinu.
Gengi karlalandsliðsins í fótbolta á árinu hefur verið milli tannanna á fólki enda er fátt jákvætt hægt að finna í níu landsleikjum liðsins á þessu ári nema kannski frábæra vikan í september þegar liðið gerði jafntefli við Spán og vann Norður-Írland. Þessi vika sér þó til þess að liðið hækkar sigurhlutfall sitt um tvö prósent milli ára en karlalandsliðið hefur aðeins unnið 2 leiki af 15 undanfarin tvö ár.
Kvennalandsliðið í fótbolta er besta landsliðið kvennamegin og er auk þess í 2. sæti yfir öll landsliðin sex. Stelpurnar unnu bæði Kína og Frakkland sem eru í fremstu röð í heiminum og með því að vinna 3 af 4 leikjum sínum í sínum riðli í undankeppni EM á liðið enn góða möguleika á að komast inn á EM í Finnlandi 2009.
Það er nokkur munur á karla- og kvennaliðunum í körfubolta og fótbolta en handboltalandsliðin virðast vera á svipuðu róli. Handboltalandslið karla náði 42 prósenta árangri í keppnisleikjum ársins og þar var kvennalandsliðið með 80 prósenta sigurhlutfall. Karlaliðið endaði í 8. sæti á HM og stelpurnar tryggðu sig inn í umspil fyrir úrslitakeppni EM. Það má því segja að handboltafólkið hafi verið í góðu formi í þeim leikjum sem skiptu máli á árinu.
Körfuboltalandslið karla náði langþráðu takmarki með því að vinna gull á Smáþjóðaleikunum í fyrsta sinn í 14 ár og endaði síðan undankeppni EM með því að vinna þrjá síðustu leiki sína. Stelpurnar náðu sögulegum árangri en 62-67 sigur liðsins á Írum í Dublin var fyrsti útisigur íslenska kvennakörfuboltalandsliðsins í Evrópukeppni.
www.visir.is
Höfundur: Óskar Ófeigur Jónsson
Mynd: www.karfan.is



