21:39
{mosimage}
Tindastólsmenn gengu nú í kvöld frá ráðningu á þjálfara fyrir Iceland Expressdeildarlið sitt, það verður Sauðkrækingurinn knái Karl Jónsson sem mun taka við liðinu af Kristni Friðrikssyni. Þetta kemur fram á vef fréttablaðsins Feykis í kvöld.
Karl hóf ferilinn sem leikmaður með Tindastól en kom svo við á Egilsstöðum og í Stykkishólmi áður en hann hóf að þjálfa hjá ÍR og svo seinna KFÍ. Undanfarið ár hefur hann veitt unglingastarfi Tindastóls forstöðu.
Í samtali við Feyki.is sagðist Karl vera gríðarlega spenntur fyrir þessu verkefni; – „Það er frábært að fá tækifæri til að taka við meistaraflokki síns uppeldisfélags. Tindastólshjartað í mér er stórt og það er akkúrat það sem ég kem til með að krefjast af leikmönnum okkar, að þeir spili með hjartanu, segir Karl. Hann segir að hugur manna hafi staðið til þess að ráða atvinnuþjálfara til lengri tíma, en það hafi ekki tekist að þessu sinni en menn stefni ótrauðir að því á næsta ári.
Það liggur fyrir að Ísak Einarsson muni ekki spila með TIndastólsliðinu þar sem hann er að flytjast á brott, en hvað með önnur leikmannamál? – Óli Barðdal er farinn til Danmerkur og óvíst að Helgi Freyr spili með liðinu áfram en við erum með ýmis plön í huga. Við þurfum að styrkja liðið hvort sem er með íslenskum eða erlendum leikmönnum og erum opnir fyrir að skoða ýmsa möguleika í þeim efnum. Ég hef þá trú að leikmenn líti landsbyggðina hýru auga í því atvinnuástandi sem nú er á suðvesturhorninu.“
Þar með styttist enn listi þeirra liða sem leika í Iceland Express deildinni næsta vetur og eiga eftir að ráða þjálfara. Visir.is greindi frá því í dag að KR væri í viðræðum við Sigurð Ingimundarson og gangi það eftir á Keflavík eftir að finna þjálfara. Þá hafa ekki borist fréttir af því hvaða lið munu þjálfa suðurlandsliðin Hamar og FSu.
Mynd: www.skagafjordur.com



