spot_img
HomeFréttirKarl: Baldur getur breytt gangi leikja á örskotsstundu

Karl: Baldur getur breytt gangi leikja á örskotsstundu

Við höfðum samband í Skagafjörðinn og náðum tali af Karli Jónssyni enda ekki úr vegi að leggja nokkrar vel valdar fyrir öðlinginn þennan daginn þegar tveir risavaxnir oddaleikir eru á dagskrá. Sjáum hvað Karl hefur að segja um oddaleiki kvöldsins.
Stjarnan-Keflavík oddaleikur
 
Keflvíkingum tókst loks að vinna Stjörnuna þetta tímabilið, eru þeir líklegir til að klára þennan oddaleik?
Það er spurning, það verður einhverskonar "break through" hjá þeim við þennan fyrsta sigur gegn þeim, en óvíst hvort það dugar. Áfram verður þetta mikil spurning um Magnús Keflavíkurmegin, hvort Stjörnumönnum takist að halda honum niðri. Heilt yfir tel ég Stjörnuliðið sterkara og með breiðari hóp, fleiri valkosti í svona leik og það yrðu svakalega vonbrigði fyrir þá ef þeir komast ekki áfram.
 
Eitthvað sem hefur komið þér á óvart í fyrstu tveimur leikjum liðanna?
Ekki neitt sérstakt sem ég hef tekið eftir, þetta eru hörkuviðureignir frekar jafnra liða þegar öllu er á botninn hvolft og úrslitin gætu ráðist á atriði eins og hvort liðið nær betri vítanýtingum.
 
Hvernig býst þú við að liðin leggji upp oddaleikinn og hver fer áfram?
Lykillinn hjá Keflavík er að þreyta Justin, setja mann á hann frá byrjun og reyna að halda óþreyttum mönnum á honum út leikinn. Stjarnan er kannski ekki með fljótasta liðið í deildinni svo Keflvíkingar gætu reynt að ná upp góðum hraða. Stjarnan verður að hemja Magnús og sækja inn í vítateig þar sem þeir eiga að vera með yfirburði.
 
Þór Þorlákshöfn-Snæfell oddaleikur
 
Svakalegir leikir hjá þessum liðum í vetur, er Icelandic Glacial Höllin óvinnandi vígi fyrir Snæfell? Hvort liðið er líklegra að þínu mati til að fara í undanúrslit?
Já þetta er rosalega viðureign. Snæfellingar hljóta að hafa öðlast þá trú að þeir eigi að geta unnið útileik á móti þeim eftir fyrsta leikinn, sem þeir voru eiginlega sjálfum sér verstir í. Þórsarar hafa hins vegar þá tröllatrú á sér að þeir tapi ekki leik á heimavelli. Það verða því stálin stinn sem þarna mætast. Auðvitað má segja að Þór sé líklegra liðið til að fara áfram, þar sem þeir eru á heimavelli, en það er eitthvað í kortunum sem segir mér að Snæfell klári þessa viðureign.
 
Hvaða leikmenn eiga meira inni hjá þessum liðum en þeir hafa verið að sýna þessa tvo leiki í 8-liða úrslitum?
Ef ég á að tína til einhverja leikmenn þá koma mér bæði Óli Torfa og Darri upp í hugann, það eru strákar sem eiga að geta lagt aðeins meira fram til síns liðs en þeir hafa gert í þessari seríu og kannski kemur leikurinn til með að velta svolítið á framlögum frá þeim, þessu extra sem þarf öðru hvoru megin. Maður hefur líka alltaf á tilfinningunni að Gummi Jóns eigi alltaf meira inni en hann sýnir.
 
Hvar vinnst þessi leikur? Með sóknarvopnum Snæfells eða varnarvinnu Þórs?
Það er alltaf sagt að vörnin vinni titla og Þórsarar hafa klárlega verið með sterkari varnarleik í vetur. En ef Snæfellingar eru skynsamir í sókninni og reyna að nýta sér skort á breidd hjá Þórsurum með því að sækja grimmt inn í teig og fiska villur, held ég að það gæti ráðið úrslitum. Einnig verða þeir að vera tilbúnir þegar Baldur stígur inn á völlinn af bekk Þórsara, það er strákur sem getur á örskotsstundu breytt gangi leikja.
 
Fréttir
- Auglýsing -