Kári Jónsson fyrirliði U20 landsliðs karla var í skýjunum eftir sigurinn á Svíþjóð í 16 liða úrslitum A-deildar evrópumótsins.
„Það gekk allt upp hjá okkur. Byrjuðum aðeins ragir en þegar við komumst í gír þá var þetta geggjað.“ sagði Kári í viðtali við Karfan.is eftir leik.
„Menn efast kannski eitthvað um eigin getu eða eru ragir í byrjun. Við eigum ekkert að vera hræddir við þetta. Þurfum bara að fara á fullum krafti inní þetta og gerum það strax á morgun.“
„Vörnin lokaði algjörlega á þá. Við héldum þeim undir 40 stigum allan leikinn. Fyrir mér er það frábært bara alveg sama á móti hverjum þú ert að spila. Vörnin var frábær sem leiddi til auðveldari karfa og sóknin var auðveldari fyrir vikið.“
„Þetta er geggjað. Þetta var það sem okkur langaði. Við höfum allir farið nokkrum sinnum á Evrópumót og alltaf verið nálægt. Alltaf verið góðir en aldrei komist alveg þangað sem við vildum. En núna erum við komnir í topp átta í A-deild. Þetta er bara svo geggjað að ég fæ ekki orð yfir það.“
„Ég þakka Bjarmari sjúkraþjálfara mikið. Er nánast búinn að vera inni hjá honum allan sólarhringinn og við náðum að tjössla mér saman. Þá náði ég að gera það sem ég gat og það skilaði í dag allavega.“
„Vitum að þetta eru góð lið. Vitum líka að við getum spilað með þeim og spilað móti þeim. Getum alveg unnið þá líka. Förum alveg bjartsýnir inní þetta.“
Ísland leikur gegn Ísrael á morgun (Fimmtudag kl 11:30) og er leikurinn í beinni útsendingu á Youtuberás FIBA.