spot_img
HomeFréttirKári fór á sjúkrahús vegna meiðsla - Þátttaka á mótinu í hættu?

Kári fór á sjúkrahús vegna meiðsla – Þátttaka á mótinu í hættu?

Kári Jónsson fyrirliði og leikmaður U20 landsliðsins meiddist á ökkla í fyrsta leikhluta leiksins gegn Tyrklandi á evrópumóti U20 landsliða sem fram fer á Grikklandi þessa dagana. 

 

Leikmaðurinn sem hefur verið sterkur fyrir liðið í undirbúningi og fyrsta leik mótsins virtist sárþjáður og mat sjúkralið mótsins og landsliðsins að mynda fótinn. Kára var því fylgt á sjúkrahús strax í fyrri hálfleik en hann var kominn aftur í höllina áður en leiknum lauk. Samkvæmt heimildum er Kári óbrotinn en óvíst er um framhaldið á mótinu hjá honum.

 

„Fyrstu fréttir eru að hann er ekki brotinn. Ég held samt sem áður að þáttaka hans á þessu móti sé stórlega í hættu. Þurfum að sjá til hvernig þetta verður en við allavega búumst ekki við honum meira eins og staðan er núna.“ sagði Finnur Freyr Stefánsson þjálfari U20 landsliðsins í viðtali við Karfan.is strax eftir leik. 

 

Það er því ljóst að líkur eru á að íslenska liðið leiki ekki með leiðtoga sinn utan og innan vallar það sem eftir lifir móti. Framundan er síðasti leikur riðilsins gegn Svartfjallalandi á morgun en þessi lið mættust í úrslitum B-deildarinnar fyrir ári síðan en þar hafði Svartfjallaland mjög nauman sigur. 

 

 

Mynd/Ólafur Þór Jónsson – Kári Jónsson fær aðstoð úr höllinni með föður sínum og grískum aðstoðarmanni. 

Fréttir
- Auglýsing -