Deildarviðureignir liðanna í vetur:
23. nóvember 2009: Stjarnan 82-75 Njarðvík
Kanalausir Njarðvíkingar höfðu verið á mikilli siglingu fyrir þennan leik en Stjarnan mátti hafa vel fyrir þessum sigri. Fremstir í flokki Garðbæinga þennan leikinn voru þeir Justin Shouse og Fannar Freyr Helgason báðir með 21 stig og Fannar þar af með 12 stig úr þriggja stiga skotum en hann jarðaði 4 af 6 þristum sínum í leiknum. Hjá Njarðvík var Jóhann Árni Ólafsson með 22 stig.
5. mars 2010: Njarðvík 72-67 Stjarnan
Hér höfðu bæði lið styrkt sig fyrir framhaldið í deildinni. Garðbæingar fengu til sín miðherjann Djorde Pantelic og Njarðvíkingar voru komnir með Nick Bradford í sínar raðir. Justin Shouse gerði 26 stig í leiknum fyrir Stjörnuna en í sigurliði Njarðvíkinga var Nick Bradford með 19 stig. Liðin unnu því sinn hvorn deildarsigurinn í tveimur nokkuð jöfnum leikjum.
Líkleg byrjunarlið og match up í kvöld og í seríunni:
(Karfan.is tekur fram að eftirfarandi eru aðeins hugleiðingar og fjarri því heilagur sannleikur)
Stjarnan:
Justin Shouse
Kjartan Atli Kjartansson
Jovan Zdravevski
Fannar Freyr Helgason
Djorde Pantelic
Njarðvík
Nick Bradford
Guðmundur Jónsson
Jóhann Árni Ólafsson
Páll Kristinsson
Friðrik Erlendur Stefánsson
Ef við byrjum á miðherjaglímunni er Djorde Pantelic ekki árennilegur en þar hittir skrattinn ömmu sína þar sem Friðrik Stefánsson hefur séð þetta allt áður. Glímt jafnvel við stærri og þyngri menn og á þeim bænum er þetta ,,just another day at the office“ fyrir Heimaklett. Pantelic er sýnu meiri sóknarmaður en varnarmaður og þýðir lítið að gefa honum frítíma í teignum enda leikmaður sem er tvennugjarn með tölur á borð við 15 stig og 15 fráköst þegar það stuð er á honum.
Páll Kristinsson og Fannar Freyr Helgason verða svo í stöðum kraftframherja en þar mætast tveir ólíkir leikmenn. Fannar þyngri og sleipari á blokinni og gæti jafnvel þurft að fara út í Pál sem hefur síðasta áratuginn verið með glæsilega skotnýtingu í teignum og leiðist ekki að rífa sig upp á lyklinum eða smeygja sér fram hjá þyngri mönnum. Fannar gæti hér lent í vandræðum í vörninni og sömuleiðis Páll þar sem Fannar á nokkur kíló á hann.
Justin Shouse verður hausverkur Njarðvíkinga sem fyrr enda hefur liðum með áberandi sterka leikstjórnendur gengið vel gegn Njarðvíkingum undanfarið. Guðmundur Jónsson verður næsta víst settur til höfuðs Shouse og hafa þeir kappar átt nokkrar svakalegar rimmur. Guðmundur er miskunnarlaus varnarmaður og Justin einn albesti sóknarmaður deildarinnar. Mjög svo áhugaverð rimma hérna á ferðinni því ef Guðmundur missir Shouse fram hjá sér og Njarðvíkingar fara í hjálparvörn losnar vel um Kjartan og Jovan utan við þriggja stiga línuna og það leiðist Garðbæingum ekki.
Það má deila um það hvort Kjartan Atli verði í byrjunarliði Stjörnunnar því eftir stendur þá hjá honum að dekka Jóhann Árna Ólafsson en þar mætast skyttan og krafturinn og Kjartan gæti lent í bullandi vandræðum varnarlega því ef Jóhann færi með hann niður í teig eru það nokkuð örugg tvö stig. Af þessum ástæðum er ekki ósennilegt að Magnús Helgason verði í byrjunarliði Stjörnunnar til að hafa gætur á Jóhanni sem byrjaði leiktíðina afar vel með Njarðvíkingum en hefur ekki náð sama flugi á síðari helming tímabilsins.
Þá stendur eftir einvígi Jovans og Nicks en þessir kappar kunna að koma stigunum á töfluna. Það verður erfitt fyrir Jovan að skjóta yfir vænghafið á Nick og sömuleiðis verður það þrautinni þyngra fyrir Nick að hanga í Jovan sem er í toppformi um þessar mundir og slakar ekki á í eina mínútu.
Heilt yfir litið eru Njarðvíkingar með dýpri bekk en Stjarnan þó fyrstu 8 hjá Stjörnunni séu að spila mest þá geta Njarðvíkingar hæglega rúllað á 10 mönnum. Af bekknum koma þeir Kristján Rúnar Sigurðsson og Hjörtur Hrafn Einarsson en báðir eru margreyndir landsliðsmenn í yngri flokkum og hafa nú síðustu ár tekið á stærri skref í úrvalsdeildinni. Þá geyma Njarðvíkingar 218 sm. Egil Jónasson á bekknum og þegar hann er á velli verða Stjörnumenn að velja skotin sín vel, annars enda þau í hramminum á Agli. Birgir, Birkir og Ólafur munu svo rúlla inn af bekk Stjörnunnar ásamt Magnúsi eða Kjartani, fer eftir því hvor þeirra verður í byrjunarliðinu. Af þeim Birki, Birgi og Ólafi hefur Ólafur mestu reynsluna í stóru leikjunum en Birkir er ódrepandi baráttujaxl sem og Birgir.
Við höfum því allar forsendur fyrir flottu einvígi og það ætti enginn að detta fram fyrir sig í forundran ef oddaleikur yrði á boðstólunum.