spot_img
HomeFréttirKarfan TV: Einvígi KR og ÍR

Karfan TV: Einvígi KR og ÍR

 
Einvígi KR og ÍR hefst í kvöld kl. 19:15 í DHL-Höllinni í Vesturbænum og fyrir þá sem komast ekki verður vafalítið hægt að fylgjast með leiknum á KR TV. KR eru deildarmeistarar og luku keppni í 1. sæti og mæta því ÍR sem luku deildarkeppninni í 8. sæti eftir frækinn sigur á Grindavík í Seljaskóla í síðustu umferð deildarinnar. Hér er á ferðinni mögnuð Reykjavíkurrimma og skemmst að minnast þess að á þarsíðustu leiktíð sendu ÍR-ingar erkifjendur sína í sumarfrí eftir 8-liða úrslitin. 
KR leikur í kvöld án Tommy Johnsons sem tekur út leikbann sem eftirmála af viðureign Stjörnunnar og KR þann 12. mars síðastliðinn. Sem fyrr leika ÍR-ingar án Sveinbjarnar Claessen sem meiddist illa í upphafi leiktíðar.
 
 
Deildarviðureignir liðanna í vetur:
 
18. október 2009: KR 82-73 ÍR
KR með 10 leikmenn á skýrslu og spila á 8 mönnum í leiknum. Þetta er leikurinn þar sem Sveinbjörn Claessen meiðist en hann hefur ekki farið í búning síðan þá. Semaj Inge gerði 19 stig fyrir KR í leiknum en hjá ÍR var Nemanja Sovic með 21 stig.
 
15. janúar 2010: ÍR 76-103 KR
ÍR-ingar fengu hér skell í Íþróttahúsi Kennaraháskólans. KR-ingar settu upp troðslusýningu í leiknum og enn var Semaj Inge stigahæstur í liði KR með 29 stig og þá var Sovic aftur á ferðinni í liði ÍR og í þetta skiptið með 22 stig.
 
KR vann því báða deildarleiki liðanna í vetur og liðin hafa því ekki mæst síðan KR skipti út Semaj Inge fyrir Morgan Lewis. Þá var Michael Jefferson með ÍR í leik liðanna í Kennó en Breiðhyltingar hafa fengið Robert Jarvis síðan þá og hefur Jarvis fallið vel inn í hópinn hjá ÍR og skemmst að minnast rosalegrar flautukörfu hans í dramatískum leik uppi í Grafarvogi gegn Fjölni.
 
Líkleg byrjunarlið og match up í kvöld og í seríunni:
(Karfan.is tekur fram að eftirfarandi eru aðeins hugleiðingar og fjarri því heilagur sannleikur)
 
ÍR:
Robert Jarvis
Eiríkur Önundarson
Steinar Arason
Nemanja Sovic
Hreggviður Magnússon
(Kristinn Jónasson inni-úti ? )
KR:
Pavel Ermolinskij
Brynjar Þór Björnsson
Morgan Lewis
Finnur Atli Magnússon
Fannar Ólafsson
 
Morgan Lewis fær örugglega það hlutverk að hafa gætur á Robert Jarvis en Lewis hefur sýnt fína varnartilburði í vetur þó svo hann sé enginn Semaj Inge! Þá mun Eiríkur Önundarson með áratugareynslu fá það verkefni að dekka Brynjar Þór til þess að kanna hvort hann geti ekki tjúnað aðeins niður í ,,Brilla“ sem hefur farið á kostum undanfarið. Ætli KR-ingar láti ekki Pavel Ermolinskij kvelja Steinar Arason og reyna þannig að loka á langdrægu eldflaugarnar hans enda ekki heiglum hent að skjóta yfir vænghafið á Pavel.
 
KR-ingar eru öllu myndarlegri í teignum og eiga þeir félagar Hreggviður, Sovic og Kristinn ærið verkefni fyrir höndum. Fannar mun láta finna vel fyrir sér og Finnur Atli mun ógna nokkrum skotum. Að sama skapi verða KR-ingar í vandræðum með leikmenn eins og Hreggvið og Sovic sem kunna vel við sig upp á lykli og vita fátt betra en að teygja vel á liðböndum stóru mannanna. Svo þegar menn eru farnir að blása móðann þá kemur Jón Orri Kristjánsson inn á völlinn og hann mun troða yfir ÍR og kveikja í KR-ingum, þá er bara spurning hvort ÍR-ingar ætli að láta nokkrar flottar troðslur brjóta sig á bak aftur, það gerðist ekki þegar Ólafur Ólafsson sveif yfir vötnum í Seljaskóla í síðustu umferðinni.
 
Þegar öllu er á botninn hvolft eru KR-ingar mun sigurstranglegri, þeir hafa leikið stöðugan bolta í vetur þó vissulega hafi maskínan hikstað en ÍR-ingar hafa, í samanburði við KR, verið í rússíbanareið en það er eins og björninn sé vaknaður í hellinum. Vígtennurnar eru beittar á ný og sigur ÍR á Grindavík í síðustu umferðinni ætti að vera fullnægjandi skilaboð fyrir KR-inga um að þeir séu á leið í hörkurimmu en ekki skylduverkefni.
 
,,Litlu bakkara syndromið“ mun örugglega spila þátt í einvíginu. Allir leikmenn KR eru höfðinu hærri en Robert Jarvis, minnir soldið á einvígið fyrir tveimur árum þegar ÍR státaði af Nate Brown. Jarvis er þó enginn Nate Brown en það verður forvitnilegt að sjá hvernig KR tæklar þennan sterka og áræðna leikstjórnanda. Að sama skapi mun Pavel Ermolinskij kvelja ÍR-inga með glæsilegum sendingum og hver veit nema að hann klári stöku ,,drive“ með körfu í stað þess að gefa boltann út, ekki á vísann að róa með svona galdramenn.
 
Fréttir
- Auglýsing -